144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[12:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru góðar spurningar sem hv. þingmaður ber hér upp. Ég veit að við erum sammála um sem hvert stefna skuli í þessum efnum. Að minnsta kosti finnst mér það vera augljóst að menn eigi að freista þess að klára viðræður við Evrópusambandið og taka upp evru. Auðvitað verður ekki alltaf sól á Íslandi þegar það hefur gerst. Það verður að halda á stjórn efnahagsmála með ábyrgum hætti og svo framvegis. Hins vegar mætti búast við því að við mundum innleiða meiri stöðugleika í kerfið. Við gætum mögulega komið okkur upp húsnæðiskerfi sem fæli það í sér að einstaklingar, fjölskyldur, hjón, mundu á endanum geta eignast húsnæði sitt, eða þá að heilbrigður leigumarkaður væri til hliðar við heilbrigt húsnæðiskerfi.

Minn stjórnmálaflokkur, Björt framtíð, er byggður í kringum þá hugmyndafræði að reyna að leysa öll mál þannig að við horfum til framtíðar þannig að við gerum þetta land lífvænlegt fyrir komandi kynslóðir, að við séum alltaf að spá í, í hverju einasta máli sem leyst er, hvernig spilast muni úr því til framtíðar. Menn mega ekki gleyma sér í hamingjuóskunum yfir því máli sem hér er til umræðu að hér er auðvitað verið að leysa sjúkt ástand, svo maður noti það dramatíska orðalag, hér er verið að leysa efnahagskerfi sem virkar ekki. Þetta er plástur á lasið kerfi. Það er nokkuð sem menn þurfa að hafa í huga og gleyma sér ekki. Þótt lausnin sé góð á þessum tímapunkti er hún ekki endanleg lausn.