144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að horfa fyrst og fremst til þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru hér við kynningu á málinu. Síðan kalla ég eftir því að við fáum nánari upplýsingar um tölur, áætlanir og líkindi sem yfirferð í efnahags- og viðskiptanefnd mun væntanlega leiða upp á borðið.

Varðandi hv. þm. Lilju Mósesdóttur vil ég einvörðungu halda því til haga hvert framlag hennar var á sínum tíma vegna þess að menn hafa verið að rifja upp sögu þessara mála. Ég er að rifja upp hugmyndir sem komu utan rammans á sinni tíð. Ég vek athygli á því að margt í þessari hugmyndafræði núna byggir á svipuðum þáttum. Þess vegna sagði ég að margir vildu nú Lilju kveðið hafa. En ég er einvörðungu að reyna að halda þessu til haga jafnframt því sem ég er að reyna að gera grein fyrir gagnrýni sem komið hefur frá henni, frá Indefence-hópnum og ýmsum öðrum um þá prósentu sem stuðst er við og hv. þingmaður segir að komi út úr einhvers konar samræðu eða samningaviðræðum við kröfuhafa. Það nægir mér ekki heldur vil ég heyra aðrar röksemdir fyrir því að þetta hafi gerst með þessum hætti og hvers vegna menn eru ekki tilbúnir að fara ofar með þessa prósentu. Ég held að það sé að meinalausu að taka eitthvað af þessum 12,5 milljörðum, 12.500 milljónum sem Soros ætlar að labba hér út með. Það gerir hann með 40% skatti.