144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú man ég ekki eftir þessari grein og þakka hv. þingmanni fyrir að rifja hana upp með mér. Hvað hefur breyst? Það sem hefur breyst er það að í þessu máli núna, í þessari niðurstöðu núna, eru engir samningar. Í þessu máli núna, (Gripið fram í.) og fólk má (Gripið fram í: Nauðasamningar.) hafa það að spotti ef það vill, í þetta skipti stóðu menn, þ.e. kröfuhafar, frammi fyrir tveimur kostum, að greiða skatt eða gangast að fullu og öllu undir skilyrði sem sett eru. Það eru engir samningar í því, það kemur fram í nýlegri blaðagrein að samningar hafi ekki verið, það hafi verið haldnir upplýsingafundir þar sem kröfuhöfum var haldið upplýstum um hvernig málið þróaðist. Engir samningar. Það er alveg ljóst að það er ekkert hér sem þeir hafa til þess að semja um, eins og ég segi, annaðhvort borga þeir 39% skatt eða þeir gangast að fullu og öllu undir skilyrði sem þeim eru sett. Ríkissjóður mun hafa út úr þessu á bilinu 680–850 milljarða kr.