144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki hægt annað en átelja hæstv. ríkisstjórn fyrir hvaða tökum hún hefur tekið þá vinnudeilu sem nú ríkir. Verkfall BHM er að hefja núna 10. viku. Hjúkrunarfræðingar hafa verið tvær vikur í verkfalli og það er ekkert sem bendir til þess að ríkisstjórnin hafi raunverulegan vilja til að semja. Umboð samninganefndarinnar er klárlega mjög takmarkað og þeir sem settir eru í samninga af hálfu ríkisins geta ekki leyst málið einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki svigrúm af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég verð að segja að hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt óvanalegan skort á skilningi á því hversu alvarleg staðan er. Ég held að það sé alveg ljóst að þegar yfir vofir lagasetning til að binda endi á verkfallið og eftir þær hótanir um slíka lagasetningu sem við höfum séð frá hæstv. ráðherrum síðustu daga er mjög líklegt að við munum tapa mikilvægum (Forseti hringir.) starfsstéttum til útlanda. Eins og hv. þingmaður Katrín Júlíusdóttir sagði hérna áðan; uppsagnirnar eru þegar hafnar í kjölfar ummæla hæstv. ráðherra.