144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:16]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór fyrir þessa spurningu. Hann notar orðið hvalreki um þá 500 milljarða sem koma hugsanlega inn, eða hver sem talan er, í þennan stöðugleikaskatt eða stöðugleikaframlag, en ég lít ekki á það sem hvalreka. Ég lít á það sem krónur sem taka þarf úr kerfinu, úr umferð. Ef þær krónur fara í umferð skemma þær hagkerfið okkar með einum eða öðrum hætti. Ég held að hægt sé að netta út innri töluna, 150 milljarða og að þá séum við bara komin að mörkum þess sem hægt er að gera og varðandi það að klára skuldaniðurfærslu heimilanna sem alltaf var gert ráð fyrir og rúmast innan stöðugleikamarkmiða. Það má vel vera að það séu einhverjir tugir milljarða til eða frá, en ég held að hundruð milljarða til viðbótar við það þurfi að hverfa úr umferð. Það er engin ástæða til að geyma það fé á einhverjum sérstökum reikningi í Seðlabankanum. Það þarf þá bara að netta það út og setja núll í staðinn, þá er engin freisting fyrir stjórnmálamenn að horfa upp á það alla daga. Ef stjórnmálamenn gætu sannfært Seðlabankann um að afhenda sér þessa peninga fyrirvaralítið og Seðlabankinn, sjálfstæður seðlabanki, mundi samþykkja það þá væri hann ekki mikils virði. En með sama hætti og seðlabankar eru sjálfstæðir í dag og taka ekki að sér að prenta peninga í hundruðum milljarða til þess að setja að óþörfu út í hagkerfið mundi engum stjórnmálamanni detta í hug, held ég, að fara að prenta hundruð milljarða til að setja í umferð og skapa ótrúlegan óstöðugleika. Ég held að þeir stjórnmálamenn yrðu ekki kosnir aftur, það er alla vega ekki vænlegt til vinsælda, held ég.

Mín persónulega skoðun, hv. þingmaður: Ég held að þetta sé ekki hvalreki, þetta eru krónur sem ekki eiga að vera til. Hlutverk þessa stöðugleikaskatts er að eyða þeim.