144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér flutti hv. þm. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, einhverja merkustu ræðu sem hefur verið flutt við þessa umræðu. Fyrst vil ég byrja á að taka undir og fagna því að hann er í reynd sammála þeirri gagnrýni sem ég og fleiri, t.d. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafa sett fram á þá staðreynd að sumir, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra, eru strax byrjaðir að skapa væntingar með því að segja hvernig þeir ætla að eyða væntum hagnaði ríkisins af þessu. Mestu skiptir þó að hv. þingmaður mælir mjög sterk varnaðarorð varðandi tvennt. Í fyrsta lagi telur hann að með því að heimila slitabúunum að selja bankana til erlendra aðila þá sé í reynd verið að fresta eða framlengja vandann sem tengist viðkomandi slitabúum og hann bendir á að hinir erlendu eigendur munu auðvitað freistast til þess að notfæra sér sem mest það tæki sem þeir fá í hendurnar til að láta greiða sér arð, sem er í íslenskum krónum, og þarf að breyta í gjaldeyri og taka út. Það skapar að sjálfsögðu verulegan þrýsting á kerfið allt saman.

Þetta þarf efnahags- og viðskiptanefnd að skoða ofan í kjölinn. Ég tek undir þessi varnaðarorð. Hitt sætir auðvitað miklum tíðindum að hv. þingmaður segir það bókstaflega af sinni þekkingu að hættulegt sé og beinlínis skaðlegt fyrir efnahagskerfið að ætla að nýta tekjurnar sem koma vegna stöðugleikaskattsins í það jafnvel að greiða niður skuldir ríkisins umfram 150 milljarða, sem svarar þá til bréfsins sem gekk milli Seðlabankans og ríkisins.

Hér eru náttúrlega vatnaskil í umræðunni vegna þess að umræðan hefur að verulegu leyti gengið, að minnsta kosti af hálfu sumra þingmanna og ráðherra, út á það að þarna sé verið að skapa mikil verðmæti sem ríkið geti notað til að greiða niður skuldir sínar og lækka vaxtagjöld sem því næmi. Ég spyr hv. þingmann: Er það þá þannig að hann sé þeirra skoðunar að hættulegt sé (Forseti hringir.) að gera neitt annað við það svigrúm sem þarna verður til en einfaldlega að núlla það út, brenna það upp, eyða því?