144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér virðist að við séum að koma að lokum þessarar umræðu. Ég hefði haldið að hæstv. fjármálaráðherra, sem reyndar hefur verið minna við en ég hafði átt von á yrði hér, hvað þá forsætisráðherra sem var líka lýst eftir að áhugavert væri að yrði hérna við umræðuna. Við verðum oft að sæta því þegar við ræðum þau mál sem minni þykja í sniðum að hér séu tómlegir ráðherrabekkirnir, en ég er svolítið hissa að við skulum hafa búið nánast við það sama í þessum risavöxnu málum, að hér hafa ráðherrar eiginlega ekki sést fyrir utan það litla sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var hér í gær.

Það hefði auðvitað verið fróðlegt ef hann hefði brugðist við ýmsu því sem hér hefur komið fram, til að mynda síðustu ræðu eða næstsíðustu ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem var á margan hátt mjög merk. Hann gekk eiginlega lengra en við stjórnarandstæðingar sem mælt höfum kannski á undan honum sterkustu varnaðarorðin og beðið menn að halda aftur af sér í gleðinni yfir því að þeir séu komnir með mörg hundruð milljarða silfursjóð sem þeir geti bara farið og ausið út á báða bóga eins og Egill hafði hugsað sér að gera á Þingvöllum forðum ef hann hefði komist til þings með silfrið. Þannig hafa því miður sumir talað.

Við höfum skilning á pólitískri þörf manna til að reyna að slá sér upp þannig en það er öllu lakara að það er auðvitað í beinni andstöðu við ráðgjöf allra okkar sérfræðinga sem hafa hvatt til mikillar yfirvegunar í sambandi við það hvernig við fjöllum um þetta vegna þeirrar lagalegu stöðu og þess lagalega grundvallar sem þessi aðgerð hvílir á, að leggja á það áherslu að þetta er ekki gert í því skyni að afla ríkissjóði skjótfenginna tekna til að ráðstafa síðan í einhverjar tilteknar framkvæmdir eða rekstur. Það væri um það bil það versta sem við gætum gert, ekki bara vegna þess að það mundi veikja málflutningsstöðu okkar fyrir dómstólum ef á slíkt reyndi, það mundi ekki líta vel út gagnvart alþjóðasamfélaginu og öðrum ef það yrði smátt og smátt ljóst að leiðangurinn hefði verið farinn til þess og hitt væri yfirskin að þetta væri efnahagsleg nauðsyn og efnahagsleg þörf til þess að við gætum aflétt gjaldeyrishöftum og komist út úr þeim sem er hins vegar veruleikinn og hefur lengi blasað við. Það er dálítið merkilegt að upplifa umræður núna á Íslandi, 2015, af mönnum sem væntanlega hafa fylgst með stjórnmálum, ef ekki voru bara komnir hér inn á þing 2008 þegar allt hrundi og árin á undan. Kom einhverjum á óvart sem hafði fylgst með stjórnmálum og efnahagsmálum á Íslandi sá vandi sem horfði framan í okkur haustið 2008, t.d. hvað varðar gríðarlegar stöður útlendinga í innlendum fjármunum? Nei. Allt frá því að vaxtamunaviðskiptin hófu innreið sína í hagkerfið á árinu 2004 var þetta áhyggjuefni öllum þeim sem eitthvað hugsuðu. Ég man mjög vel þá tíma þegar —

Forseti. Ræðutíminn hlýtur að hafa verið meira en tvær mínútur, er það ekki? Er ég ekki í minni annarri ræðu með 15 mínútur?

(Forseti (ÓP): Fimm mínútur.)

Já. Nei, 15? Nú, þá hef ég eitthvað feilreiknað mig, ég hélt að þetta væri tvöfaldur ræðutími samtals um bæði frumvörpin og stemmir því illa að ræða númer tvö sé ekki að minnsta kosti tíu mínútur. Ég hafði miðað við að ég hefði þann tíma til málflutnings.

En þetta blasti við okkur haustið 2008, gríðarleg staða útlendinga hér í krónum og afleiðingarnar meðal annars þær að þó að gengið hefði fallið um 50% myndaðist strax aflandsgengi á krónunni og ef ég man rétt kostaði evran yfir 300 krónur. Markaðurinn birti okkur þann veruleika strax, verðfelldi í reynd krónur gríðarlega gagnvart erlendum gjaldmiðlum, langt umfram gengisfallið sjálft. Þetta hefur blasað við allan tímann síðan, ekkert nýtt, ekkert sem neinn fann upp rétt fyrir kosningar og þar fram eftir götunum.

Þess vegna voru sett á gjaldeyrishöft og við þetta hefur verið glímt æ síðan.

Ég ætlaði, ef ég hefði haft ræðutíma sem ég vona að sé kominn á hreint …

(Forseti (ÓP): Forseti getur upplýst að það var samkomulag um tvöfaldan ræðutíma í fyrri umferð en það gildir ekki um seinni ræður.)

Það er mjög sérstakt. Ég hafði haldið að það væri ekki tekinn af mönnum ræðuréttur með því að sameina umræðu um málin, en það verður þá bara við það að sitja. Ég hafði aðeins ætlað að gera athugasemdir við meðal annars barnalegar sögutilburðarskýringar hæstv. forsætisráðherra sem, eins og stundum áður, var að reyna að sleppa ákveðnum köflum úr mannkynssögunni eða stjórnmálasögunni. Á mannamáli var það sem hæstv. forsætisráðherra sagði að jú, það hefði að vísu verið ágætt að menn settu neyðarlögin. Hann sló ekki eign sinni á það en allt annað sem hefði gerst gott á Íslandi frá landnámsöld væri honum að þakka.