144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur því miður ákveðið að flytja hér á þinginu frumvarp til laga um lög á yfirstandandi vinnudeilum. Það vekur mikla athygli að úr því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka svo afdrifaríka ákvörðun sé ekki boðað á þingfundi í dag að hæstv. forsætisráðherra mæli fyrir málinu eins og eðlilegt væri þar sem frumvarpið heyrir undir marga fagráðherra stjórnarinnar. Það vekur athygli að í forföllum, hverju sem þau sæta, sé það ekki fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með samningana sem þá mælir fyrir frumvarpinu, ellegar heilbrigðisráðherra þar sem málið er efnislega rökstutt á þeim forsendum að ástandið í heilbrigðiskerfinu kalli á lagasetningu, heldur er það hæstv. atvinnuvegaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sem mun eiga að mæla fyrir málinu hér í þinginu. Við hljótum að hefja hér fundinn á því að óska eftir skýringum ríkisstjórnarinnar á því hvers vegna það er hæstv. atvinnuvegaráðherra sem á að bera málið í þingið og hvers vegna hæstv. forsætisráðherra er ekki í fyrirsvari fyrir því eða þá alla vega formaður hins stjórnarflokksins, Bjarni Benediktsson.