144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í tíu vikur höfum við í stjórnarandstöðunni verið að kalla eftir samtali hér um kjaradeilur á vinnumarkaði, í tíu vikur. Og svörin sem við höfum fengið úr þessum sal er að hingað hafi verið sendir þingmenn til að gera að okkur hróp um að vinnudeilur verði ekki leystar í þingsölum. Hvað er okkur svo boðið upp á hér? Okkur er boðið upp á það með engum fyrirvara að þessi ríkisstjórn ætli að leysa þessar vinnudeilur einmitt í þingsölum með lagasetningu.

Ég verð að segja alveg eins og er að þessi ríkisstjórn ræður ekki við verkefni sín. Við erum búin að bjóða upp á samtal um þetta aftur og aftur. Og ef komið var fram við viðsemjendur ríkisins með sama hætti og við stjórnarandstöðuna hér þá skil ég vel að allt sé í uppnámi. Það er ekki bara Alþingi sem hér er í uppnámi heldur samfélagið allt vegna gerða þessarar ríkisstjórnar, vegna vangetu hennar til að takast á við vandamál samtímans.