144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru nú fremur ömurlegar aðstæður sem okkur er boðið upp á, að fara að ræða þetta mál hér eins og það er í stakk búið. Þetta frumvarp siglir inn á þingið undir fölsku flaggi. Látið er í veðri vaka að verið sé að fresta verkfalli með þessu frumvarpi. En hér er ekki verið að fresta verkfalli, verið er að taka samnings- og verkfallsréttinn af um ótilgreindan tíma og svo lengi sem gerðardómur ákveður að láta það ástand varða. Verið er að skerða þessi mikilvægu mannréttindi í raun án takmarkana og það er sett í hendur svokallaðs gerðardóms, sem reynist ekki vera gerðardómur, heldur þriggja manna nefnd úr Hæstarétti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta er ekki gerðardómur með fulltrúum deiluaðila og hlutlausum oddamanni, þetta er hlutdrægur gerðardómur því að í 3. gr. eru forsendurnar allar á vegum ríkisins, ekki er vikið einu orði að kröfugerð eða hagsmunum gagnaðilans. Það er allt listað hér upp sem ríkið hefur borið fram í þessari deilu, meira að segja á Hæstiréttur að gerast dómari um efnahagslegan stöðugleika. (Gripið fram í.) Þannig að frumvarpið er hneyksli, (Gripið fram í: Skammarlegt.) fyrir (Forseti hringir.) utan tilganginn.