144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Já, ekki batnar 3. gr. eftir athyglisverða útlistun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á henni þar sem Hæstiréttur á að skipa alla þrjá en deiluaðilar ekki að koma að. Þetta er enn eitt dæmið um samráðsleysi núverandi ríkisstjórnar, sem virðist ekki geta brotið odd af oflæti sínu og rætt við stjórnarandstöðuna til að reyna að skapa víðtækari sátt í þessari erfiðu kjaradeilu. Virðulegi forseti, auðvitað er það þannig að samninganefnd ríkisins á að ganga að borðinu og semja. Hún á að koma hér inn og semja við þá sem eru í verkfalli, eins og hún hefur gert við lækna og kennara, svo tekin séu dæmi, og taka mið af þeim samningum vegna þess að þar er verið að leiðrétta gagnvart hruninu og hruni krónunnar. Getum við reiknað með því að halda til að mynda hjúkrunarfræðingum í vinnu hjá okkur á Íslandi ef byrjunarlaun eru 304.000 kr., eins og þau eru í dag? (Forseti hringir.) Ég segi nei og það er þetta sem hæstv. fjármálaráðherra fyrir hönd samninganefndar ríkisins verður að átta sig á og þess vegna þarf að bjóða betur í þessum samningum.