144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi deila vera svolítið mikið um stjórnunarstíl. Hæstv. utanríkisráðherra til dæmis fattar ekki að það var samningalipurð og samtal sem leysti hið risastóra verkefni varðandi slit búanna. Hann virðist ekki fatta það. Hann meira að segja hafnar því, eða margir í stjórnarliðinu hafna því að samtalið hafi átt sér stað á meðan það er svo augljóst að það var hluti af hinni farsælu lausn.

Við erum núna vitni að því að hér eru kjaramál komin í öngstræti, algjört öngstræti, vegna þess að almennilegt samtal, almennilegar sáttaumleitanir hafa ekki átt sér stað. Og það virðist vera einhvers konar bjargföst trú ríkisstjórnarinnar að stunda ekki svoleiðis stjórnmál. Við höfum fundið það á eigin skinni í þinginu að þetta samtal á sér ekki stað hér. Ég vil því biðja hæstv. forseta, sem fer fyrir þinginu, að leggjast nú á árarnar með okkur (Forseti hringir.) sem viljum breyta stjórnunarstílnum og nýta þessi dæmi, upplausnina í þinginu, upplausnina á vinnumarkaði, sem röksemdir fyrir því að fara í það að breyta þessum stjórnunarstíl og hafna honum.