144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kom hér upp áðan og velti því fyrir sér af hverju ekki væri hægt að ljúka umræðu um fundarstjórn og halda áfram með málið. Þá hefði hann kannski átt að hlýða á mál okkar fyrr þar sem við spurðum um og báðum um svör við því hvers vegna hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála flytur þetta mál, hvers vegna forsætisráðherra gerir það ekki. Því hefur ekki verið svarað.

Í stað þess koma ráðherrarnir hér upp með skæting. Og ég verð að segja að ræða hæstv. utanríkisráðherra segir eiginlega allt sem segja þarf um stöðuna í þinginu, stöðuna og viðhorf þessara aðila gagnvart viðsemjendum sínum, gagnvart þeim hópum sem ekki eru sammála þeim í einu og öllu.

Þessi ræða sýndi líka með hvaða hætti þessi ríkisstjórn nálgast málin, nálgast þjóðlífið og þjóðfélagið sem hún á núna að fara fyrir. (Gripið fram í.) Hún nálgast það með því að vera enn (Forseti hringir.) í stjórnarandstöðu við fráfarandi ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn verður að fara frá, þetta gengur ekki lengur. (Forseti hringir.) Það eru komnir nýir tímar.