144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Áður en kröfuhöfum í þrotabúum bankanna voru boðnir nauðasamningar var hlerað að hverju þeir gætu gengið. Þegar BHM og hjúkrunarfræðingum eru boðnir nauðasamningar er ekkert hlerað, þá er bara sagt: Gerið þið svo vel, takið þið þetta, takið það sem þið hafið ekki léð máls á, BHM í níu vikur og ég veit ekki hversu lengi hjúkrunarfræðingar. En mig langar til að lesa upp úr plaggi sem heitir stjórnarsáttmáli. Þar stendur:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Mig langar til að spyrja virðulegan forseta hvort honum þyki hæstv. utanríkisráðherra leggja sitt lóð á þessa vogarskál, þá sjaldan hann sýnir sig hér.