144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Nú erum við að fara að ræða það hvort taka eigi þetta mál á dagskrá. Ég hafna því alfarið. Þetta mál er illa undirbúið. Þetta er óábyrgt frumvarp sem ríkisstjórnin ætlar að setja hérna inn í þingið. Við þingmenn minni hlutans — ég vil að þjóðin skilji þetta algjörlega — höfum dagskrárvaldið í þessu máli. Við getum hafnað því að taka þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar, illa undirbúið og óábyrgt, inn í Alþingi, okkar þing. Við getum hafnað því. Það þarf bara einn þriðja hluti þingmanna til, þriðjungur þingmanna getur núna hafnað þessu. Við eigum að senda frumvarpið til ríkisstjórnarinnar og segja henni að vinna það betur ef hún ætli að halda þessu til streitu, þannig að hún setji ekki algjöra svívirðingu í andlitið á heilbrigðisstarfsmönnum landsins. Best væri náttúrlega að hún sæi að sér um helgina. Við eigum að gefa ríkisstjórninni helgina í það.