144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rangt sem hér er haldið fram, að það hafi verið reynt að ná sáttum í þessari deilu af hálfu ríkisvaldsins. Ég held að ekkert hafi verið gert til að reyna að ná sáttum í þessari deilu. Það eina sem hefur verið gert er að reyna að sannfæra launafólkið, hvort sem það eru konur eða karlar, dreg ég engar línur þar á milli, á of bágum kjörum — ekkert hefur verið gert til að koma til móts við þetta fólk umfram þær línur sem lagðar hafa verið af öðrum aðilum, t.d. fulltrúum LÍÚ. Þetta er veruleikinn í málinu. Hefur verið hreyft hér við Lánasjóði íslenskra námsmanna og kjörum sem boðið er upp á sem BHM hefur ítrekað sagt að gæti skipt máli við lausn kjaradeilunnar, a.m.k. verið einn þáttur í slíkri lausn? Nei, ekkert slíkt orðað.

Ég vil vekja athygli á einu. Við getum (Forseti hringir.) ekki komið í veg fyrir að þetta mál komi á dagskrá. Við getum frestað því, en við getum ekki komið í veg fyrir að það komist á dagskrá. Þá þurfum við (Gripið fram í.) — nei, það verður þá eftir helgina (Gripið fram í.) og þá þurfum við að spyrja hvaða gagn við gerum með því. (Forseti hringir.) Ég vil fá umræðu um þetta sem fyrst. Ég mun ekki greiða atkvæði með því vegna þess að ég er svo andvígur þessum frumvörpum, en ég tel ekkert unnið með því að bíða með þá umræðu fram á mánudag. (Forseti hringir.) Það sem skiptir máli er að þessi ríkisstjórn skipti sjálf um skoðun og afstöðu í þessari kjaradeilu. Um það snýst þetta mál. (Gripið fram í.)