144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef tekið þátt í því að setja lög á verkföll, það er alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, en það sem við erum að horfa í hér, bæði í þinginu og á vinnumarkaði, er ósigur stjórnunarstíls sem felst í því að menn tala helst ekki saman. Það er það sem við erum að gagnrýna hér. Það er fráleitt, og það sjá það allir, að ætla sér að boða fund með stjórnarandstöðu klukkan níu að morgni og setja á dagskrá klukkutíma síðar frumvarp um að setja lög á verkfall þegar menn hafa svo vikum skiptir lagt á það áherslu að fólk þurfi að ýta ágreiningsmálum til hliðar og fara að einbeita sér að vanda sem blasir við öllu þjóðarbúinu. Það er kaldhæðnislegt að maðurinn, hv. þm. Jón Gunnarsson, sem ber ábyrgð á því algera öngþveiti sem skapaðist í þingstörfunum á síðustu vikum, skuli koma hér upp og tala digurbarkalega um að aðrir hafi gert hitt og þetta. (Forseti hringir.) Það er algjörlega fráleitt og auðvitað veit hv. þingmaður það.