144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

Afbrigði um dagskrármál.

[14:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú staða sem hér er komin upp er sorglegur endir á ömurlegum útspilum ríkisstjórnarinnar í kjaradeilunum sýknt og heilagt. Við höfum kallað eftir því vikum saman að menn komi hingað inn og ræði við okkur um kjaradeilur. Þessi ríkisstjórn hefur ekki verið tilbúin að ræða deilurnar á vinnumarkaði við okkur eða lausnir á þeim nema það að bjóða okkur upp á að ræða þær á þeim forsendum að setja lög á deiluna. Það er aðferðafræði þessarar ríkisstjórnar. Við í Samfylkingunni, við jafnaðarmenn, getum ekki stutt það að menn fari fram með þessum hætti. Við erum á móti þessari lagasetningu.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er búin að leggja þetta frumvarp inn í þingið. Það er núna í höndum þingsins og hvort sem það verður tekið á dagskrá núna eða eftir nokkra daga breytir engu, ríkisstjórnin mun ekki gera neitt á meðan, ekki neitt. Það vitum við vel. Hún hefur verið í sýndarviðræðum hingað til og við höfum þá að minnsta kosti tækifæri hér til þess að taka málið til umræðu (Forseti hringir.) og reyna að koma einhverju viti fyrir þessa ríkisstjórn í umræðum hér á Alþingi.