144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

Afbrigði um dagskrármál.

[14:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er einmitt lykilatriði sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi áðan, tilfinningin er sú að viðræðurnar sem verið hafa í gangi hafi verið sýndarviðræður, að það sé ekki raunverulegur vilji að ná samningum í þessu máli, að samninganefnd ríkisins hafi ekki haft raunverulegt umboð til að ná samningum í þessu máli, að það sé ekki raunverulegur vilji til að koma með framlög af hálfu stjórnvalda, hvort sem er í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna eða með innspýtingu í heilbrigðiskerfið til að greiða fyrir samningum. Nú er málið komið til kasta þingsins eftir að við höfum ítrekað óskað eftir umræðum um það í þinginu án þess að fá þær og þá er eins gott að við tökum þær umræður þótt við að sjálfsögðu getum ekki stutt að svona mál komist hér á dagskrá, að svona mál sé yfir höfuð lagt fram. En því miður, eins og ég sagði áðan, virðist það vera orðin tilhneiging að stefna kjaraviðræðum almennt í þennan ömurlega farveg í stað þess að reyna að byggja hér upp einhverja menningu í kringum kjarasamninga þar sem gagnkvæm virðing ríkir á milli þeirra aðila sem við eiga.