144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

Afbrigði um dagskrármál.

[14:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það sem hér var verið að enda við að segja, enda getum við vinstri græn ekki stutt þetta og þær aðgerðir sem hér á að fara í, því að eins og fram kom áðan hefur ríkisstjórnin því miður ekki haft neinn vilja til að semja. Eina vonin er sú að þegar málið kemur hugsanlega til nefndar að þar verði hægt að koma einhverju viti fyrir fólk. Sáttatónninn var gefinn með ræðu hæstv. utanríkisráðherra áðan. Samningsumboðið er skýrt, eins og rakið hefur verið, og mér finnst líka mikilvægt að hugsa til þess þegar hæstv. fjármálaráðherra gjammar hér fram í og talar um ástandið á sjúklingum landsins, að við þurfum líka að huga að heilbrigði þess starfsfólks sem á að sinna þessu veika fólki. Það fólk er aðframkomið. Það er undirmannað á spítölunum, við vitum það, og er búið að vera það til allt of langs tíma, og við þurfum frekar að lagfæra þær aðstæður með betri kjörum og með betri aðbúnaði, sem ríkisstjórnin sýnir ekki nema að mjög litlu leyti að hún vilji koma að, þ.e. með byggingu spítala sem ekki sést í næstu ríkisfjármálaáætlun. Hér þurfum við að taka höndum saman og búa vel að því fólki sem á að sinna hinu veika fólki (Forseti hringir.) í landinu en ekki að setja á það lög og hirða af því allan rétt og ætlast svo til þess að það haldi hér áfram að vinna undir óviðunandi álagi við erfiðar aðstæður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)