144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er þessi ríkisstjórn ekki í stakk búin til að semja eins og fólk við fólk á vinnumarkaði heldur kemur hún hingað og ætlar að fara fram með lagasetningu á löglegar aðgerðir fólks sem mótmælir kjörum sínum.

Ofan á allt saman treysta menn sér ekki til að ljúka þeim málum í dagsbirtu heldur á að keyra hér þingfund inn í kvöldið. Ég verð að segja alveg eins og er að hér er allt í uppnámi. Þingstörfin hafa verið með þessum hætti vikum saman og það er komið nóg. Förum að setja á einhverja starfsáætlun fyrir þetta þing, fyrir það sumarþing sem hér er hafið og byrjum það þá af einhverjum myndarskap. Ég er á móti því að menn ætli að freista þess að ræða lög á þessa hópa inn í nóttina, inn í einhverja næturfundi. Menn eiga að þora að horfast í augu við þessa aðila í dagsbirtu og ljúka því þannig með sóma.