144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Rökin fyrir því að sitja hér hjá til að málið komist til umræðu í þinginu eru þau að ég tel að umræðan sé mjög mikilvæg. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta mál komist til nefndar, en þá verðum við líka að gæta þess að það fái tíma þar þannig að allir aðilar máls geti fengið tækifæri til að koma með sínar skýringar á því hvernig málið hefur gengið fyrir sig og svo hv. velferðarnefnd fái tíma til að fara yfir stöðuna hjá heilbrigðisstofnunum og öðru slíku, eins og er meginröksemdin í frumvarpinu. Það verður ekki gert með fundi eftir fund inn í nóttina. Þess vegna er kvöldfundur algerlega óþarfur og við getum tekið okkur þann tíma sem við þurfum. Ástæðan fyrir því að við vildum fá þetta mál inn í þingið er einmitt sú að við viljum fá umræðuna. Förum þá í hana og vandaða málsmeðferð en ekki eitthvert offors við að ljúka málinu. Þetta er nógu slæmt þó að við vöndum okkur við að reyna að gera það eins bærilegt og hugsanlegt er.