144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við flestir stjórnarandstæðingar lögðumst ekki gegn því að mál þetta kæmi á dagskrá þó að hugur okkar margra hverra hefði ugglaust staðið til þess, en það gerðum við, eða ég að minnsta kosti, vegna þess að það hefði eingöngu frestað því í tvo eða eftir atvikum fimm sólarhringa. En það fól ekki í sér neitt vilyrði fyrir því að ríkisstjórnin fengi síðan flýtimeðferð með þetta mál í gegnum þingið. Það er annar hlutur. Þess vegna er ástæða til að spyrja: Hvað liggur að baki ósk um kvöldfund? Eru það áhyggjur forseta yfir því að 1. umr. þurfi meiri tíma en fram að kvöldmat? Eða er hugsanlega meiningin að afgreiða þetta í einni lotu í gegnum nóttina? Er það á dagskrá hjá hæstv. ríkisstjórn? Mér finnst að við eigum alveg skilið að fá skýringu á því þegar tillaga er lögð fram um kvöldfund af hvaða ástæðum það er. Hver er meiningin með því fundarhaldi? Er það bara að koma málinu til nefndar? Gott og vel, þá hefði mátt ræða það við okkur. En ef er eitthvað meira á dagskrá eins og það að láta fundi standa hér í nótt og 2. og 3. umr. kannski klárast undir morgun held ég að það sé mikill misskilningur hjá forseta að ímynda sér að það verði þannig.