144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar við fengum frumvarpið í hendur í morgun í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs settumst við yfir það og erum algerlega einhuga í andstöðu okkar við það. Við skoðuðum auk þess einstakar greinar frumvarpsins og teljum okkur hafa séð alvarlegar brotalamir í því sem varðar m.a. stjórnarskrá Íslands.

Þess vegna vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Helga Hjörvar áðan, að við þurfum að fá frá hæstv. forseta þingsins hvað hann sér fyrir sér að gæti gerst hér á kvöldfundi. Hugsa menn virkilega að þetta mál verði afgreitt á kvöldfundi frá Alþingi eða er einvörðungu verið að tala um að fá málið inn í nefnd? Það er mjög mikilvægt að fá þetta þingmál til umfjöllunar í þingnefnd hið fyrsta þannig að þar sé hægt að setjast yfir það og búa það síðan í hendur okkar hér í þinginu til lengri og málefnalegrar umræðu.