144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[14:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Frumvarpið er sameiginleg ákvörðun ríkisstjórnar sem mér var falið að flytja um kjaradeilur er varða fjögur fagráðuneyti, velferðarráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Sem kunnugt er hófust verkfallsaðgerðir BHM þann 7. apríl síðastliðinn og hafa þær því staðið í rúmar tíu vikur. Aðgerðirnar hafa falið í sér tímabundin og ótímabundin verkföll.

Kjaradeilum félaganna var vísað til ríkissáttasemjara 26. mars síðastliðinn. Síðan hafa deiluaðilar rætt saman en lítið hefur áunnist í þeim viðræðum og staðan því einfaldlega þannig í dag að líta má svo á að engin lausn sé í sjónmáli. Ótímabundið verkfall Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hófst 27. maí síðastliðinn og hefur því staðið í tvær vikur. Kjaradeilu félagsins var vísað til ríkissáttasemjara 1. apríl síðastliðinn. Síðan hafa deiluaðilar rætt saman en lítið hefur áunnist í þeim viðræðum og er staðan einfaldlega þannig í dag að líta má svo á að engin lausn sé í sjónmáli.

Við þekkjum öll umræðuna sem eðlilega hefur verið í samfélaginu undanfarna daga um þau áhrif sem þessi verkföll hafa á ótal aðila í landinu. Ríkisstjórnin hefur ekki blandað sér með beinum afgerandi hætti í þær viðræður sem verið hafa í gangi milli aðila og hefur hún með því viljað gefa samninganefndunum, aðilunum, tækifæri til að klára samninga sín á milli. Staðan í dag er því miður með þeim hætti að verkfallsaðgerðir hafa verulega neikvæð áhrif á almannahagsmuni og hafa sett fjölda verkefna ríkisins og samfélagsins í uppnám.

Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Bandalags háskólamanna hafa haft verulega röskun í för með sér þegar kemur að heilbrigðisþjónustu við almenning í landinu. Hættuástand sem felur í sér að lífi, heilsu eða öryggi manna er stefnt í hættu, getur fljótlega skapast innan heilbrigðiskerfisins. Því til staðfestingar og rökstuðnings má vitna í minnisblöð landlæknis til ríkisstjórnar og heilbrigðisráðherra þar sem segir að verkföllum verði að ljúka tafarlaust ef ekki eigi illa að fara. Því standi mjög ríkir almannahagsmunir til þess að starf á heilbrigðisstofnunum landsins komist í eðlilegt horf þannig að lög sem fela í sér takmörkun á verkfallsaðgerðum eiga tvímælalaust rétt á sér við núverandi aðstæður. Ríkir almannahagsmunir og/eða réttindi annarra standa einnig til þess að bundinn verði endi á verkföll hjá starfsmönnum sýslumanns, dýralæknum og starfsmönnum Fjársýslu ríkisins. Þessar verkfallsaðgerðir koma niður á réttindum annarra þar sem þær hafa neikvæð áhrif á ráðstöfun eigna, viðskipti og framleiðslu, svo fátt eitt sé nefnt.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá skoðun mína, sem ríkisstjórnin hefur margoft lýst opinberlega, að farsælasta leiðin í þessu máli hefði verið að deiluaðilar hefðu náð samningum. Það er ekki og á aldrei að vera sjálfsagt mál að ríkisvaldið grípi inn í kjaradeilu með þeim hætti sem nú er gert. Það er í raun óviðunandi að til þess þurfi að koma.

Það eru ætíð þung skref fyrir hvern ráðherra og hverja ríkisstjórn og að sjálfsögðu líka fyrir Alþingi allt að fjalla um frumvarp sem tekur á slíkum verkefnum. Réttur fólks til að grípa til sameiginlegra aðgerða til að knýja á um kjarabætur er verndaður og við viljum vernda hann í lengstu lög. Um þennan rétt og heimild til takmörkunar á honum er fjallað í IV. kafla almennra athugasemda í frumvarpinu.

Hins vegar er nauðsynlegt fyrir löggjafarvaldið að velta því fyrir sér og meta áhrifin sem verkfallsaðgerðir sem þessar gætu haft fyrir almenna borgara á Íslandi ef það yrði látið halda áfram með óbreyttum hætti. Það er ekki neitt sem við getum rætt um af léttúð, enda mundi þetta ástand, ef það fengi að vera áfram í sama farvegi, hafa veruleg og afgerandi áhrif, ekki bara á heilbrigðisþjónustuna heldur á samfélagið allt. Til að forða því neyðarástandi sem upp er komið þarf Alþingi því miður að stíga inn í þessa deilu með lagasetningu.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í gegnum þær viðræður sem hafa átt sér stað eða þær kröfur sem gengið hafa á milli samningsaðila eða tjá mig um fyrirkomulag þess að öðru leyti en því að ég harma að samningar hafi ekki tekist. Það eru veruleg vonbrigði að þurfa að ganga til þessa verks með þessum hætti.

Hins vegar er ljóst af öllu ofangreindu að ríkir almannahagsmunir eru í húfi og ríkar ástæður eru fyrir því að grípa inn í umræddar verkfallsaðgerðir. Inngrip Alþingis er því miður nauðsynlegt til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru undir, bæði þjóðfélagslega, efnahagslega og einnig fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni.

Í frumvarpi þessu er farin sú leið sem er nokkuð hefðbundin þegar til þessara verka þarf að koma á Alþingi. Sú leið er að gefa deiluaðilum færi á að leysa úr ágreiningi sínum fyrir tilsettan tíma, ella verði kjaradeilan lögð fyrir gerðardóm. Til að stuðla að aukinni sátt um ákvörðun gerðardóms er í frumvarpi þessu farin sú leið að skipa gerðardóm til að leysa úr ágreiningi aðila. Gerðardómurinn skal skipaður þremur fulltrúum sem tilnefndir verða af Hæstarétti Íslands. Gerðardómur skal í ákvörðun sinni hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærileg geta talist, líta til menntunar, starfa, vinnutíma, ábyrgðar og eftir atvikum þeirra kjarasamninga sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við ákvarðanirnar skal jafnframt gæta að stöðugleika í efnahagsmálum landsins.

Skal gerðardómurinn hafa lokið störfum eigi síðar en 15. ágúst næstkomandi.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið tilefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og allsherjar- og menntamálanefndar.