144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við í minni hlutanum á þingi höfum farið fram á það um nokkurt skeið, margar vikur, jafnvel mánuði, að kjaramálin, vondar horfur á vinnumarkaði, síðan mjög slæmar horfur og slæmt ástand á vinnumarkaði, vinnudeilur, yrði rætt í sölum Alþingis. Það hefur verið spurt eftir stefnu ríkisvaldsins gagnvart þessum vinnudeilum og sérstaklega í þeim tilvikum þar sem ríkisvaldið sjálft er aðili að deilunni.

Ég verð að játa að það kann að hafa háð málflutningi stjórnarandstöðunnar á þingi að vita ekki að það er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fer með kjaramálin. [Hlátur í þingsal.] Það hefði kannski verið ágætt fyrsta skref að segja okkur það svo við hefðum getað beint máli okkar til hans. Mig langar því að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Af hverju hefur hann ekki orðið (Forseti hringir.) við kröfum minni hlutans um að ræða kjaramál í þingsal hingað til?