144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrra atriðið kemur fram í textanum, ef hv. þingmaður hefði lesið áfram, að um þetta efni hefur verið skorið úr í dómi Hæstaréttar sem fyrr var nefndur, að lagasetning þurfi ekki að vera almenn heldur geti löggjafinn gripið inn í tilteknar kjaradeilur. Að öðru leyti vísa ég til þessa útskýringakafla sem er mjög skýr og almennur og stendur mjög vel fyrir sínu.

Varðandi hitt atriðið, að hér sé eingöngu sett í 3. gr. ákvæði frá hendi annars aðilans, er það auðvitað ekki svo. Hér er fjallað um að það á að fara að taka hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærileg geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og eftir atvikum kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við ákvarðanirnar skal jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála. Um þetta fjallar einnig frumvarpið almennt.