144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel þetta á engan hátt nógu skýrt. Hæstv. ráðherra endurtekur bara sömu gömlu lummuna um að kvennastéttirnar í heilbrigðiskerfinu eigi að bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika á Íslandi á meðan hæstv. [Hávært lófatak á þingpöllum.] fjármálaráðherra fer í hádeginu heim í sinn flokk til að tala um skattalækkanir í stað þess að auka útgjöld í heilbrigðiskerfið. Við í Samfylkingunni munum flytja boðaða breytingartillögu um að það verði miðað við áramótin. Að sjálfsögðu á að taka tillit til læknasamninganna í gerðardómi. Það er augljóst af dagsetningunni að ríkisstjórnin lítur ekki svo á. Við skulum sjá til hvort viðhorfið í umræðunum muni ekki aðeins breytast og þið munið aðstoða okkur við að breyta þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)