144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:42]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja þingmanninn sem sat áður í síðustu ríkisstjórn hvernig sú ríkisstjórn, og allar aðrar ríkisstjórnir sem þar áður hafa verið, hefðu leyst þetta. Í frumvarpinu stendur á bls. 9, með leyfi forseta:

„Haft var samráð við ríkissáttasemjara og deiluaðila 6. júní sl. og 8. júní sl. varð niðurstaða þess samráðs að sáttanefnd mundi ekki bæta neinu við núverandi viðræðuferli og að hún mundi ekki leysa kjaradeilu aðila.

Aðilar áttu síðan fund hjá ríkissáttasemjara 10. júní sl. án árangurs.“

Nú ætla ég að spyrja hv. þingmann sem sat áður í ríkisstjórn og hefur reynslu af þessu: Hvernig hefði þingmaðurinn leyst þessa deilu? Nú hefur hún reynslu af slíkri setu og hefur áður samþykkt að setja lög á deiluaðila, ég spyr aftur hvernig þingmaðurinn vilji leysa þessa deilu. Því að sannarlega er hér ömurleg staða, það vill enginn setja þau lög sem við erum að leggja hér til.

Hér var vitnað að mér finnst með ódýrum hætti í veiðigjöld og við getum alveg haft fullt af ólíkum skoðunum á því. Við búum hins vegar ekki til peninga sisvona. Og við öll sem hér erum inni erum sammála um að ekki er hægt að svimhækka launin bara í einu stökki einn, tveir og þrír, það er ekki hægt. Það þarf að gera í ákveðnum skrefum. Ég held að allir séu sammála um það.