144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:46]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort sem talan er einn eða fjórir, það gerir alveg það sama. Hv. þingmaður verður að skilja það. Það breytir ekki þessu. Hér þurfum við að vera raunsæ og skynsöm, það er alveg rétt. Ég kann illa við það að mér sé gert það upp að ég sé að tala um að hjúkrunarfræðingar séu að fara fram á einhver svimhá laun. Ég sagði það hins vegar að það þýðir ekki að fara fram á einhverja kröfu sem er algjörlega óraunhæf, það er alveg rétt. Það eru allir sammála um það, allar stéttir.

Það er best að ég spyrji þá þingmanninn: Áttum við þá ekki að semja við lækna? Áttum við ekki að ganga að kröfum þeirra? Kannski að fá álit þingmannsins á því.

Ég spyr þingmanninn aftur hafandi þá reynslu að sitja í ríkisstjórn: Hvernig á að leysa þessa deilu því að við búum sannarlega ekki til peninga? Best að fá hennar álit á því. Deilunni lýkur sannarlega ekki, henni lýkur ekki með þessari lagasetningu. Verið er að setja gríðarlega mikinn þrýsting á deiluaðila og vonandi næst samkomulag áður en þessi lagasetning tekur endanlega gildi.