144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er munur á því hvort menn gera eitthvað einu sinni á fjórum og hálfu ári eða fjórum sinnum á tveimur árum, það er munur á því. Sá munur felst í því að í öll hin skiptin var samið. Halda menn að hér hafi ekki verið kjaradeilur á síðasta kjörtímabili? (Gripið fram í.) Jú, biddu fyrir þér, þá voru sko kjaradeilur. En hvað gerðist? Menn sömdu. Þessi ríkisstjórn semur hins vegar ekki lengur, hún er hætt að semja. Hún biður Samtök atvinnulífsins um að semja fyrir sig og ef menn eru ekki sáttir við að láta troða því ofan í kokið á sér þá eru sett lög á þá. (Gripið fram í: Áttum við þá ekki að semja við lækna?) Það er það sem menn gera hér, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) og því erum við að mótmæla hér. Það er þetta kjarkleysi og það sem þessi ríkisstjórn er að gera, því erum við að mótmæla. Þessi ríkisstjórn er búin að gefast upp á verkefninu. (Gripið fram í: Áttum við ekki að semja við lækna?) Hún er búin að gefast upp á verkefninu, hún fórnar núna höndum og segir: Ef þið viljið ekki það sem almenni markaðurinn samdi um þá fáið þið bara lög á ykkur. Þetta er vinnulagið. Þetta er það sem menn ætla að gera. Þetta er það sem menn hafa ákveðið að gera hér.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er auðvitað ekki boðleg staða. Og ef hv. þingmaður er svona ánægður, sem ég er líka, að menn hafi samið við lækna í byrjun árs, hvers vegna vilja menn þá ekki láta taka tillit til þeirra í þeirri nefnd sem ætlað er að reyna að komast að lausn þessara mála? Af hverju sníða menn þá þetta frumvarp fram hjá því að menn taki tillit til þeirra samninga?

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér þykir aumt þegar menn ákveða að þeir ráði ekki við svona verkefni og reyni með einhverjum hætti að breiða yfir það með því að benda á aðra. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn verður að fara að viðurkenna það að hún er bara ekki góð í að takast á við hluti. Hvað gerir maður við slíkar aðstæður? Maður (Forseti hringir.) leggur niður vopn, maður segir af sér og boðar til kosninga.