144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að halda áfram sem frá var horfið í andsvari hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og svari hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um þennan gerðardóm. Ég upplifi það reyndar svo að hér séu um ótrúlega einstrengingslega nálgun á mjög flóknar kjaradeilur að ræða þegar gert er ráð fyrir því að gerðardómurinn sé ekki skipaður aðilum deilunnar. Þetta kemur mér mjög á óvart. Ég heyri þær raddir innan úr hópi þeirra sem eiga í þessum kjaradeilum að menn upplifa það þannig að miðað við hvernig ríkisvaldið hefur nálgast kjaraviðræðurnar af miklum ósveigjanleika, heyri ég, hefði ríkisvaldið og stjórnarmeirihlutinn í raun og veru alveg getað komið hérna með frumvarp til laga um það hvernig þessi kjör ættu að vera. Er það ekki bara hreinlegra? Í staðinn fyrir að vera að fara þá millileið að Hæstiréttur skipi einhverja þrjá utanaðkomandi einstaklinga til að skera úr um kjörin á forsendum ríkisstjórnarinnar, forsendum sem eru raktar í greinargerðinni, væri bara miklu hreinlegra að koma með lög um það hvernig þessi kjör eigi að vera. Hér er ekki verið að fara neina samningaleið. Hér er verið að hafna henni. Það er verið að hafna þeim grundvallarprinsippum sem eiga að gilda á vinnumarkaði að deiluaðilar eigi að reyna að komast að niðurstöðu, það er verið að kippa því úr sambandi.

Verkföll hafa alltaf áhrif. Þau hafa alltaf áhrif á þriðja aðila. Ég býst við að verkfall sem hefði ekki áhrif á þriðja aðila væri bitlaust, gagnslaust verkfall. Verkföll eru alvarlegt mál. Það verkfall sem stendur yfir núna er mjög alvarlegt t.d. fyrir stöðuna í heilbrigðisþjónustunni. Ég heyri það innan úr LSH að þar er mjög alvarlegt ástand. Við skulum horfast í augu við það. En þess vegna er líka svo mikilvægt að fara af alvörugefni en ekki einhverju fálæti inn í svona ástand á vinnumarkaði. Við höfum auglýst eftir því í minni hlutanum á þingi svo vikum skiptir, jafnvel svo mánuðum skiptir, hvað ætti að gera þegar ljóst var að stefndi í þetta ástand — það er reyndar langt síðan að það varð ljóst.

Mér fannst til dæmis það sem gert var í fjárlögum fyrir þetta ár og í tekjuöflunarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar alveg ótrúlegt miðað við það ástand sem var í uppsiglingu. Það var farið í aðgerðir eins og að stytta bótatíma atvinnuleysisbóta, áframhaldandi svik á framlögum í starfsendurhæfingarsjóð, áframhaldandi niðurrifsstarfsemi á Fæðingarorlofssjóði, mjög subbuleg umgengni um tryggingagjaldið og allt algjörlega án samráðs við vinnumarkaðinn. Þarna er nótan slegin. Síðan höfum við orðið vitni að þessu fálæti gagnvart menntuðu starfsfólki ríkisins, gagnvart menntuðu starfsfólki á Íslandi. Hver er staðan? Staðan er einfaldlega sú að við erum í samkeppni við aðrar þjóðir um þetta vinnuafl, urrandi samkeppni við aðrar þjóðir um þetta vinnuafl. Hæstv. forsætisráðherra gerði sér vel grein fyrir þessu þegar hann skrifaði 21. nóvember 2012, með leyfi forseta:

„Í Noregi er skortur á hjúkrunarfræðingum svo mikill að allir íslenskir hjúkrunarfræðingar, um 2.800 talsins, gætu fengið þar störf. Störf sem almennt eru mun betur launuð en hér á landi. Undanfarið hefur verið mjög virk eftirspurn eftir íslenskum hjúkrunarfræðingum til starfa í Noregi og ljóst að ef ekkert er gert til að bæta ástandið hér á landi munu nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar, sem og reynslumikið fólk sem nú starfar á stofnunum ríkisins, horfa alvarlega til þeirra kosta.“

Þetta skrifaði hæstv. forsætisráðherra þá og ég held að staðan sé alveg óbreytt. Þetta er samkeppnin sem við eigum í og ekki bara varðandi hjúkrunarfræðinga heldur líka allt það menntaða vinnuafl sem núna er í verkfalli. Hvað mundi metnaðarfull ríkisstjórn gera á slíkum tímapunkti? Mundi hún kannski setja það á dagskrá að við þurfum að hanna einhverja stefnu hér á Íslandi, aðgerðaáætlun til þess að verða ekki undir í samkeppninni? Gæti sú áætlun til dæmis verið um að minnka endurgreiðslubyrði námslána? Að námslán breytist í styrk til dæmis eins og talað hefur verið um, eins og gert er víða annars staðar á Norðurlöndum og er mikilvægt fyrir menntað vinnuafl þar? Er hægt að ljá máls á svoleiðis? Er hægt að endurreisa Fæðingarorlofssjóð sem skiptir mjög miklu máli fyrir allt það unga menntaða fólk sem er að flytja til útlanda og er að íhuga flutninga á þessum tímapunkti? Væri hægt af alvöru að gera eitthvað í húsnæðismálum svo hér verði fýsilegra að búa fyrir þetta fólk? Er hægt að skoða uppbyggingu á nýsköpun og tækniþróun, grænum iðnaði og skapandi greinum til þess að þetta fólk hafi fjölbreyttari kosti hér á landi? Er þetta ekki svona? Þarf ekki að fara í átak til að halda þessu fólki? Af hverju sýnir ríkisstjórnin ekki á nein svona spil? Af hverju reynir hún ekki á neinum tímapunkti að hefja samtal við þennan mikilvæga hóp fólks um svona mál? Þetta snýst ekki bara um launaprósentur. Þetta snýst líka um það hvaða stefnu menn hafa og hvernig menn hafa hagað sér gagnvart þessu ótrúlega mikilvæga vinnuafli á Íslandi.

Það kostar nokkrar milljónir að mennta einstakling. Við segjum þess vegna að menntun sé fjárfesting. Það getur aldrei verið góð stefna að við stöndum að menntuninni hér á landi og reynum að gera það af metnaði, en að vinnuaflið sé til útflutnings og allt þetta góða fólk, allt þetta hæfileikaríka fólk borgi síðan skatta annars staðar. Það er ekki gott módel fyrir íslenska hagstjórn. Við verðum að hefja átak til þess að halda þessu fólki hér á landi, ekki bara fyrir heilbrigðisgeirann, heldur fyrir þjóðfélagið almennt. Það er þetta sem ég gagnrýni. Ríkisstjórnin skilar algjörlega auðu í þessu verkefni. Núna kemur útspilið: það á að setja lög.

Ég hef gagnrýnt hvernig gerðardómurinn á að vera skipaður. Mér finnast í raun ótrúlegt að hann eigi að vera skipaður svona. Því hlýtur að verða breytt í nefndinni. Ég gagnrýni líka að ekki eigi að setja inn í frumvarpið að miða eigi við þá kjarasamninga sem hafa verið gerðir við lækna og þá kjarasamninga sem hafa verið gerðir við kennara, svo dæmi sé tekið. Í raun á að miða við kjarasamninga sem hafa samkvæmt tímasetningunni ekki verið gerðir vegna þess að ekki hefur verið gengið til atkvæða um þá. Það er galli á þessu frumvarpi.

Gerðardómur ákveður líka hvort þessar stéttir geti yfir höfuð farið í verkfall um ókomna framtíð. Þriggja manna gerðardómur eins og lögin eru skrifuð núna, skipaður af Hæstarétti, getur ákveðið að úrskurðartími sinn sé ótakmarkaður. Þær stéttir sem hér eru undir eiga ekki að hafa verkfallsrétt á meðan úrskurðartími gerðardóms er í gildi, en það er ekkert sagt um tímamörkin á úrskurði gerðardóms. Þannig að við erum að fela einhverjum þremur einstaklingum, kannski verða þeir allt karlmenn, það væri nú í stíl við málatilbúnaðinn, að ákveða í raun og veru algjörlega framtíðarfyrirkomulag kjara þessara stétta um ókomna tíð. Þetta er ótrúlega róttækt. Þetta er ótrúlega óskammfeilið. Þetta er ótrúlega þvergirðingslegt, en ef til vill ekki miðað við það hvernig ríkisstjórnin hefur nálgast þessar kjaradeilur. Hvað heyri ég? Ég heyri innan úr þessum kjaradeilum að aðilar á vinnumarkaðnum, stéttarfélögin, hafa ítrekað komið með alls konar boð, alls konar hugmyndir að lausnum. Þess vegna var svolítið merkilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra fara í pontu áðan og segja: Á ríkisvaldið bara að samþykkja allar kröfur? Þetta er nálgunin. Nei, ríkisvaldið á ekkert að samþykkja allar kröfur, en ríkisvaldið á að hlusta og meta þær kröfur sem eru lagðar á borðið og koma síðan með gagntilboð. Þetta eru nefnilega samningaviðræður. Og það er eðlilegt á einhverjum tímapunkti að aðilar í samningaviðræðum setji sínar ýtrustu kröfur upp á borðið og það er eðlilegt að menn bíði síðan eftir einhverju viðbragði, fái eitthvert svar. Mér skilst að svarið hafi alltaf verið á eina bókina lært, það hafi bara verið nei. Nei, nei, nei. Engar viðræður, engir samningar, ekkert áframhald, og svo bara lög. Þetta er stjórnunarstíll. Þetta er einhvers konar „ég ræð, pabbi minn er lögga“-stíll og hann gengur ekki. Við upplifum hann líka í þinginu. Hér er ófremdarástand og hefur verið, um 80 mál liggja undir. Og tilboðið sem okkur hefur verið gert, það eina sem í raun og veru hefur legið á borðinu kannski þangað til undanfarið, var: Þið getið samþykkt mjög umdeilda breytingartillögu um virkjanir og svo fáið þið líka að samþykkja allt annað. Þetta hefur verið tilboðið. Sáttaumleitanir okkar í minni hlutanum, tilraunum til þess að reyna að tala um þetta á uppbyggjandi hátt, hefur líka verið mætt með þessu sama nei-i og hefur verið rauður þráður í viðbrögðum ríkisvaldsins við kröfum á vinnumarkaði.

Þessi veggur í samskiptum, þessi leið til að eiga við annað fólk, hún gengur ekki. Það er vonandi að sem flestir fari að átta sig á því að við erum að horfa upp á algjört gjaldþrot ákveðins frekjustjórnunarstíls sem virðist hafa ráðið ríkjum í herbúðum ríkisstjórnarinnar.

Já, hvað á að gera? Á að hækka kjörin og auka þar með þenslu í landinu? Það getur vel verið að kjarasamningar almennt séu komnir út í óefni og það hafi mistekist að hafa stjórn á væntingum. Ég get sagt ýmislegt um umgjörð kjarasamninga. Ég held að það þurfi að vera einhvers konar almennt samkomulag um það í þjóðfélaginu á hvaða grundvelli kjarabætur eigi að vera reistar. Ég held að á þessum tímapunkti og löngu fyrr raunar hefðum við átt að átta okkur á því að það er rosalega langt frá því í íslensku samfélagi að við séum búin að ná því samkomulagi. Það á þá auðvitað að vera verkefni. Við verðum að koma einhverjum böndum á þetta samtal og hvernig það á að fara fram. Menn hafa áhyggjur af þenslu, en fólk er ekki alveg samkvæmt sjálfu sér í þeim áhyggjum vegna þess að í einu orðinu er hægt að hafa áhyggjur af þenslu og í hinu orðinu að fara í skuldaniðurfellingaraðgerð upp á 150 milljarða, eftir því hvernig það er reiknað, sem snýst einfaldlega um að dreifa peningum úr ríkissjóði, aðallega til fólks sem hefur miklar tekjur og á miklar eignir. Það er rökrætt í því samhengi og gagnvart þeirri aðgerð sem á sér engin fordæmi að þar þurfi menn ekkert að hafa áhyggjur af þenslu. Nei, nei, engar áhyggjur af þenslu þótt Seðlabankinn hafi áhyggjur af þenslu þar, nei, það þarf engar áhyggjur að hafa af þenslu í því tilviki.

Menn ræða hér mjög mikið, kannski í tilefni af því að mikill peningur er mögulega að koma inn í ríkissjóð, að þeir ætli að fara í umfangsmiklar skattalækkanir, lækkanir á tollum. Þær geta verið ágætar, en hafa menn ekki áhyggjur af þenslu í þeim tilvikum líka? Af hverju ekki? Menn tala hér fjálglega og vilja helst fara í þrjár virkjanir helst bara sem fyrst, fyrir klukkan fimm. Hefur það ekki þensluhvetjandi áhrif á samfélagið? Menn samþykktu læknasamninga og þeir verða að vera fordæmi fyrir aðra samninga í heilbrigðismálum, er það ekki? Það var ekki rætt um að setja lög á lækna, en þeir byggðu líka á því að sérfræðilæknar, læknar á stofum, fengu, mundi ég segja, nánast sjálfkrafa hækkun á gjaldskrám sínum árið áður. Það var engin umræða um þenslu. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér í umræðu um þenslu. Ég hef áhyggjur af þenslu. En þær áhyggjur verða að gilda á öllum sviðum.

Núna er sú sorglega niðurstaða að blasa við á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna að aðrar stéttir sem við köllum kannski ekki kvennastéttir hafa farið í verkfall og fengið sínu fram og aldrei var rætt um lög, en núna þegar stórar kvennastéttir eru í verkfalli þá kemur til greina að setja ekki bara lög á þau verkföll heldur kippa beinlínis samningsréttinum algjörlega úr sambandi og fela þremur einstaklingum á vegum Hæstaréttar að ákveða þetta, jafnvel um ókomna tíð. Þetta er hneisa.