144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt í stjórnunarstíl sem vekur athygli í þessu máli, annars vegar það að nálgast samningaviðræður þannig að segja bara ítrekað nei og svo aftur nei og svo nei og nei og hoppa svo í ýtrasta úrræðið sem er að setja lög, sem, sérstaklega í ljósi forsögunnar að lagasetningunni þar sem ríkisvaldið hefur ekki orðið uppvíst að mikilli samningalipurð, heyri ég, hljóta að jaðra við mannréttindabrot, ég segi ekki meira. Það er svo alveg rétt sem hv. þingmaður segir að hér er verið að fara á mjög róttækan hátt inn í stjórnarskrárbundinn rétt fólks á vinnumarkaði til að semja um sín kjör. Hér eru mjög margir hópar settir undir sama hatt, mjög margir. Yfirleitt þegar sett hafa verið lög á verkföll er um afmarkaðar stéttir að ræða, í þessu tilviki er um stéttir að ræða sem ríkið er viðsemjandinn við, en við höfum kannski séð lög á verkföll þar sem brýnir hagsmunir valda því að grípa þarf inn í þar sem tveir deiluaðilar úti í samfélaginu hafa um langa hríð ekki komist að samkomulagi og ýmsar þrengri röksemdir. Hér er um mjög almenna lagasetningu að ræða sem byggir fyrst og fremst á nálgun ríkisstjórnarinnar í samningaviðræðum sem er þvergirðingsháttur. Það styður það að hér sé mögulega um mannréttindabrot að ræða.

Ég sagði að tvennt í stjórnunarstílnum vekti athygli. Hitt er þetta „ugla sat á kvisti,“ sem virðist hafa farið fram í ríkisstjórninni, ríkisstjórnin er greinilega orðin svo buguð af öllum þeim vondu málum sem hún leggur hér ítrekað fram að hún er farin að ákveða í sínum röðum með svona „ugla sat á kvisti“-aðferð hver eigi að mæla fyrir þeim. (Forseti hringir.) Það er alveg nýtt og mjög athyglisvert.