144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra er að minnsta kosti ekki eftirdæmi nokkurra annarra með því kjarkleysi sem hann sýnir. Hann hendir þessu í einn af sínum ágætu ráðherrum, mál sem hann átti auðvitað að flytja sjálfur ef hann taldi þörf á því. Af hverju? Vegna þess að málið er svo vont. Ég held að það muni reynast ríkisstjórninni mjög erfitt að verja þetta fyrir dómstólum ef málið kemst svo langt.

Mig langar að drepa ofan í það sem segir í dómi sem féll árið 2009 þar segir, með leyfi forseta:

„Þótt bann við verkföllum gæti náð til vissra flokka ríkisstarfsmanna gæti ekki staðist að banna þeim öllum að fara í verkfall eins og í því tilviki sem um ræddi, þ.m.t. starfsmönnum ríkisfyrirtækja.“

Það kann að virka fyndið, en herra trúr, þetta frumvarp nær til dæmis yfir Félag íslenskra hljómlistarmanna og Leikarafélag Íslands. Með öðrum orðum, það er verið að banna með lögum verkfall í sinfóníunni og Þjóðleikhúsinu. Samkvæmt þessum dómi stenst það ekki. Ég held þess vegna að ef hægt er að setja krók í þetta atriði þá falli öll lagasetningin fyrir dómi. Ég held að hæstv. forsætisráðherra sem býr yfir sérstakri skrifstofu og sérfræðingum sem fara ofan í það með hvaða hætti lagagerningar standast alþjóðlegar skuldbindingar og stjórnarskrá hafi einfaldlega vitað að þarna var hann á hálum ís, á holklaka sem gæti brostið undan honum.

Auðvitað er það þannig að þetta mál allt saman og það öngstræti sem það er komið í á ríkisstjórnin með tómat og sinnepi. Hennar fyrsta verk var að semja við sérgreinalækna upp á 23%, um lækna upp á 30%, við kennara upp á næstum því 30% og hvernig á þá að vera hægt að meina öðrum háskólamenntuðum mönnum eða svo maður taki samanburðinn við lækna og hjúkrunarfræðinga, að biðja um hið sama? Þetta stenst ekki. Ég segi þess vegna: Það er ríkisstjórnin sem bjó til þennan vanda. Svo kemur hún hér með þetta forkastanlega (Forseti hringir.) klúðurplagg sem mun ekki standast fyrir nokkrum alþjóðlegum dómstóli og ætlar að klára málið þannig og hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) þorir ekki að bera málið fram.