144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf ánægjulegt, geri ég ráð fyrir, ef menn eru bænheyrðir og mér er hvort tveggja ljúft og skylt að taka til máls við þessa umræðu hér og hef í hyggju að fylgjast rækilega með henni. Ég ætla að gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli og ég ætla að nálgast þá umræðu út frá þeirri skyldu og þeirri ábyrgð sem mér er falin sem heilbrigðisráðherra. Þar undir eru sjúklingar sem sækja þjónustu til heilbrigðiskerfisins og síðan okkar ágæta starfsfólk sem innan vébanda þess vinnur. Það er hárrétt ábending sem hefur ítrekað komið fram hjá ræðumanni að það hljóta að vegast á þau sjónarmið í þessu máli, við þá dapurlegu gjörð að þurfa að setja lög á kjaradeilu, hvaða langtímaáhrif og skammtímaáhrif það eru sem leiða af þeirri ákvörðun sem hér er verið að leggja til.

Ef við horfum yfir sviðið eins og það er þá hafa frá því að verkfallsdeilur hófust með verkfalli lækna fyrir 33 vikum um 20 vikur, þrír mánuðir, farið í verkföll innan heilbrigðiskerfisins og á þeim tíma hefur þjónusta þess nánast einskorðast við bráðaþjónustu. Þetta hefur verið unnt að gera með mjög góðu samstarfi við stéttarfélög sem hafa í rauninni gert það kleift að heilbrigðisstofnanir hafa fengið nauðsynlegar undanþágur svo að bráðastarfsemin gæti gengið með það að meginmarkmiði að öryggi sjúklinga sé tryggt svo sem kostur er við þessar aðstæður. Ég fullyrði að allir starfsmenn innan heilbrigðisþjónustunnar leggja sig verulega fram um að sinna störfum sínum á hvaða sviði svo sem það er, en það er hins vegar algerlega ljóst að það er langur vegur frá því að heilbrigðisþjónustan á Íslandi í dag sinni þeim sem til hennar leita á þann hátt sem eðlilegt væri og skynsamlegt.

Það hefur líka verið nefnt hér sumarleyfi starfsfólks sem unnið hefur núna, eins og ég hef lýst, í mjög margar vikur, í langan tíma undir gríðarlegu álagi. Nú fer að líða að sumarleyfum þeirra sem eru langþráð og fyllilega verðskulduð. Það kallar sömuleiðis á það að við vegum og metum með hvaða hætti heilbrigðisþjónustan á Íslandi geti þjónustað og staðið við verkefni sín, sem henni ber að lögum að sinna.

Ef við lítum aðeins á stöðuna, þó ekki væri nema til Landspítalans 8. júní, hvernig er staðan þar í þeim efnum? Hvernig erum við að þjónusta fólkið? Jú, virkum rúmum á Landspítalanum hefur fækkað um 130. 300 myndgreiningarrannsóknum hefur verið frestað. 200 hjartaþræðingum hefur verið frestað. Á venjulegum degi eru þær innan við 100. 5.600 dag- og göngudeildarkomum hefur verið frestað og 700 skurðaðgerðum hefur verið frestað, af þeim 700 eru það 200 aðgerðir frá 1. júní, eftir að verkfall hjúkrunarfræðinga hófst. Við þessar aðstæður verður sífellt erfiðara að tryggja öryggi sjúklinga. Það leiðir af sjálfu sér.

Þá er spurningin sem við sem berum ábyrgð á þessu stöndum frammi fyrir: Hversu langan tíma á að gefa til að ná samningum? Hversu lengi þurfa starfsmenn og sjúklingar að bíða þess að við sjáum á einhvern hátt framan í það að við getum farið að vinna á þeim verkefnum sem við viljum öll að heilbrigðisþjónustan okkar sinni? Þó svo að þessi deila verði leidd í jörð á þennan hátt þá kemst ekki allt á stundinni í fullkomið horf í heilbrigðisþjónustunni. Það er langur vegur frá. Það verða fullt af verkefnum þar óleyst og það mun taka margar vikur, mánuði að koma heilbrigðiskerfinu af stað, hvernig svo sem þeirri deilu sem nú er uppi lýkur, hvort heldur er með samningum eða með þeirri gjörð sem hér er lögð til. Ég verð að játa það alveg heils hugar að mér finnst mál að linni og þá tala ég meðal annars fyrir hönd sjúklinga í þessum efnum og styðst í þeim efnum til að mynda við álit og umsagnir embættis landlæknis, sem hefur gefið okkur öllum ágæta yfirsýn og álit sitt á þeirri stöðu sem þarna er uppi. Hann hefur metið ástandið þannig að það sé beinlínis orðið ógn við heilsu fólks að eiga viðskipti eða eiga undir þá þjónustu að sækja sem heilbrigðiskerfinu okkar á Íslandi er ætlað að sinna. Þegar maður horfir framan í það að á undanförnum vikum hafa samningar samninganefnda aðila, ríkisins og stéttarfélaganna, ekki náð neinum árangri í að nálgast og jafnvel á síðasta fundi sem haldinn var áður en slitnaði endanlega upp úr spólaði í sömu hjólförum eins og áður hafa verið ekin, þá segi ég: Þolinmæði minni er lokið í þeim efnum og ég geri kröfu til þess að við komum málunum í annan farveg.

Sáttasemjari treystir sér heldur ekki til að leggja fram tillögu til sátta eða miðlunartillögu. Það var reynt að fara þá leið sem stjórnarandstaðan varpaði upp fyrst í tengslum við verkfall lækna, að nýta heimild í lögum um kjaramál og vinnudeilur, að skipa sáttanefnd. Það var ágætishugmynd en hún gekk ekki heldur, þokaðist ekki nokkurn skapaðan hlut. Á umliðnum vikum hafa öðru hverju kviknað upp og vaknað vonir hjá þeim sem sárast eiga um að binda í þessum efnum þegar viðræður aðila hafa hafist á ný. Þegar þeim hefur ekki miðað neitt og þeim lýkur með slitum þá leggjast þær áhyggjur ofan á aðrar sem þetta fólk hefur af heilsu sinni. Ég tel einfaldlega í þeirri stöðu sem uppi er að valkostirnir sem við sem erum í ábyrgð fyrir þessari þjónustu stöndum frammi fyrir séu þeir að láta sjúklinga og þá einstaklinga sem þurfa að sækja undir heilbrigðiskerfið búa áfram við þessa óvissu, áhyggjur og ónot eða við þurfum að taka á okkur að axla ábyrgðina og þungann af erfiðri ákvörðun. Ég ætla að gera það. Ég vil frekar taka það á mig en að láta sjúklinga búa áfram við þessa óvissu.

Um leið og ég segi það viðurkenni ég fúslega að ég hef áhyggjur af langtímaáhrifum þessarar gjörðar, verulegar áhyggjur, því að við stöndum í samkeppni um þetta ágæta vinnuafl við aðrar þjóðir. En eins og ég hef lýst í ræðu minni tel ég að lengur verði ekki við þetta óbreytta ástand búið og ég sé ekkert í kortunum í dag sem bendir til þess að samninganefndir aðila séu að fara að nálgast, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þá hefði ég og vonaðist raunar eftir því að sáttasemjari kæmi fram með tillögu sem gæti orðið grunnur að því að aðilar næðu að ljúka því í atkvæðagreiðslu sín á milli en því miður mat sáttasemjari bilið á milli deiluaðila of mikið til að hann treysti sér til að gera það. Ég tel það ábyrgðarleysi að höggva ekki á hnútinn í þessari stöðu og vil ekki undir neinum kringumstæðum víkja mér undan þeirri ábyrgð og skal bera þann kross sem af því leiðir að lagasetning á stöðuna verði að veruleika.

Ég vek athygli á því að í þessu frumvarpi er sömuleiðis gefinn kostur á því fyrir báða deiluaðila í tvær, þrjár vikur að vinna að því að ná sáttum og ég ætlast til þess að báðir aðilar geri það og ég vonast til þess að ekki þurfi að reyna á ákvæðin um gerðardóm þann 1. júlí eins og þessu er stillt hér upp.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn vilji í andsvörum ræða eitthvað frekar um ýmis atriði sem hafa verið nefnd í umræðunni og eru tengd samningum við aðrar stéttir, tækjabúnaði í heilbrigðisþjónustunni, gjaldtökum o.s.frv. Það er töluvert af rangfærslum í þeirri umræðu sem ég skal feginn leiðrétta ef ég fæ tækifæri til þess á eftir.