144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og einnig málefnalega ræðu hennar hér áðan. Þó að ég hafi ekki endilega verið sammála öllum atriðum í henni var þar mælt af mikilli yfirvegun og skynsemi en engu að síður komu fram ákveðin grundvallaratriði sem ég var ekki sammála. Það voru engar rangfærslur þar í, það kom fram hjá öðrum þingmönnum að öðru leyti en því að það er ekki rétt að gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu á sjúklingum hafi aukist. Það er rangt. Gjaldtaka og hlutdeild sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi var 19,2% árið 2013 og lækkaði niður í 18,9% árið 2014, þannig að ég sé ekki hvernig menn hafa fundið þetta út.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi hér um að styrkja stofnanir og sérstaklega heilsugæsluna. Við höfum á síðustu tveimur fjárlögum lagt okkur fram um að nýta það takmarkaða svigrúm sem okkur hefur verið skapað við fjárlagagerðina til að styrkja spítalaþjónustuna. Ég hef sagt það áður í þessum sal að það er komið að því núna að það svigrúm sem við kunnum að fá verði fyrst og síðast lagt í heilsugæsluna í þeirri þjónustu sem okkur er ætlað að veita.

Þegar ég nefni vikur og mánuði leiðir það bara af sjálfu sér að sumarleyfi munu standa fram í miðjan ágúst. Við gerðum ráð fyrir því að þegar verkfalli lækna lauk hafi verið farið að vinna upp og endurskipuleggja biðlista, en í þeirri törn sem staðið hefur yfir núna hafa öll plön raskast og ekki verið nokkur einasta stund fyrir stjórnendur heilbrigðisstofnana til að búa til einhverjar áætlanir til að vinna á þeim stabba. Þeir hafa fyrst og fremst verið í viðbragðsstöðu til að veita bráðaþjónustu í þeirri stöðu sem uppi er og þess vegna hefur langtímahugsunin í kerfinu vikið til hliðar á undanförnum tveimur mánuðum.