144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að vinna að undirbúningi fjárlaga næsta árs þar sem meðal annars er tekið á þeim þáttum sem hv. þingmaður ræðir um í styrkingu einstakra þjónustuþátta. En vissulega átti ég eftir að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður kom fram með varðandi skattalækkanir og áherslur okkar sjálfstæðismanna á þær.

Fyrst vil ég tiltaka að skattalækkun snýr að því að bæta kjör fólks, þeirra einstaklinga sem afla sér fjármuna með brauðstriti sínu. Ég er bara einfaldlega þeirrar skoðunar að það sé kjarabót að lækka skatta á einstaklinga, fyrir utan það að grundvallarskoðun mín er sú að einstaklingum sé betur treystandi til að fara með fjármuni heldur en stjórnmálamönnum. Reynslan hefur sýnt okkur að einstaklingum er það lagnara og betra að skapa verðmæti á grundvelli strits síns heldur en stjórnmálamönnum í gegnum tíðina hefur nokkurn tíma tekist.