144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að almennt sé sá skilningur hjá þeim sem hér hafa rætt málin og víðar raunar að ekki sé verið að gera á neinn hátt lítið úr því ástandi sem í heilbrigðiskerfinu er. Staðan er að mati allra grafalvarleg og mér finnst fólk almennt umgangast stöðuna með því hugarfari svo það sé bara sagt. En við erum hins vegar klemmd í einhverri stöðu sem ég hef metið þannig að við verðum að brjótast út úr og það verður seint sagt um þann sem hér stendur að hann hafi umgengist það að setja lög á verkfall af einhverri léttúð. Ég hef verið mjög eindreginn talsmaður þess að ekki komi til þess. Ég hef hvatt til samninga, ég hef rætt, af því að hér er spurt, við aðila beggja vegna borðs, ýtt á hluti, gengið eftir því að fundum sé komið á o.s.frv. Á meðan hef ég haft það meginhlutverk að halda utan um og standa undir þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem á heilbrigðisráðherra eru lagðar.

Hér er verið að ræða um með hvaða hætti menn eru að bera fram mál á ýmsum fagsviðum. Ég held mig við það fagsvið sem mér er ætlað að lögum að sinna og nýti það umboð sem ég hef til þeirra verka með þeim hætti að ræða við aðila beggja vegna borðsins, bæði stéttarfélaga og ríkisins megin og ýta á að það komist á samningur af því að það er til lengri tíma það eina sem kemur okkur út úr þessari stöðu svo viðunandi sé. Ég tek undir með hv. þingmanni að það ástand sem þarna er uppi skynjar heilbrigðisstarfsfólk manna best og það á að vera okkur öllum hvatning til samninga sem hv. þingmaður nefnir hér.