144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eina sem var rétt í ræðu hæstv. ráðherra voru hin síðustu orð. Það er rétt að samningar sérfræðilæknanna voru kannski ekki 23% vegna þess að þeir voru hærri ef maður tekur verðbæturnar með.

Ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra um það að við þurfum að hugsa um sjúklinga og ég eins og hann stend með sjúklingum. Þess vegna stend ég með því að heilbrigðiskerfið verði byggt upp og gert þannig úr garði að sjúklingar njóti sem bestrar aðstöðu, umönnunar og sem bests starfsfólks. En hvað heldur hæstv. ráðherra að gerist ef hann ætlar að fara með þessum hætti til að leysa deiluna? Hann sagði það sjálfur í ræðu sinni áðan, hann sagðist óttast að markaðslögmálin mundu sjá til þess að menn mundu greiða atkvæði með fótunum, hverfa úr starfi og fara til hinna Norðurlandanna, nákvæmlega sömu rök og hæstv. ráðherra hafði þegar læknadeilan var uppi (Forseti hringir.) og hún var leyst til að halda læknunum heima. Hvers vegna eigum við ekki að halda hjúkrunarfræðingunum (Forseti hringir.) heima? Og af hverju eru ekki þeir peningar komnir (Forseti hringir.) sem hér var lofað? Fóru þeir kannski allir í læknana?