144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Menn hafa spurt ýmissa spurninga, nú síðast hæstv. heilbrigðisráðherra, sem mætti gjarnan hlýða á það sem ég ætla að segja. Hann hefur ekki bara spurt spurninga, hann hefur líka komið hér með yfirlýsingar. Sú sem ég staldra fyrst við er að hann hafi í hyggju að tala fyrir hönd sjúklinga í þessari deilu. Þá spyr ég: Gegn hverjum? Gegn hæstv. fjármálaráðherra? Hvar liggur ástæðan fyrir því að þessi deila er komin í þann hnút sem raun ber vitni?

Mig langar til að byrja á því að segja örfá orð um verkfallsréttinn og sögu þessara mála vegna þess að ég hef af því þungar áhyggjur að verið sé að grafa undan verkfallsréttinum sem er öryggisventill launafólks í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta er í fjórða skipti á þessu kjörtímabili sem aðeins er hálfnað sem rætt er um lög á samninga. Það hefur verið rifjað upp. Í einu tilvikinu var um að lög á yfirvinnubann hjá starfsmönnum á ferjunni Herjólfi. Þetta er náttúrlega miklu stærra og alvarlegra mál sem hér er um að tefla. Það er ekki í fyrsta sinni sem lög eru sett á þá hópa sem hér um ræðir. Þegar horft er til baka til ársins 1990 í þjóðarsáttarsamningunum voru sett lög á samninga og þeir hreinlega numdir úr gildi. Það var mjög umdeild gjörð. Bæði voru lögin sem þá voru sett mjög umdeild og samningarnir sem teknir voru af voru líka umdeildir. Ég var sjálfur í hringiðu þeirra atburða sem skildu eftir sig mikil sár innan raða launafólks vegna þess að þar var ágreiningur og átök. Og þótt þessi deila nú sé ekki sambærileg við það sem þá gerðist, og mætti hafa um hana mörg orð, er hún sambærileg að einu leyti. Hún er sambærileg að því leyti að um er að ræða gríðarlegt högg á það fólk sem staðið hefur í kjarabaráttu og verkföllum á þriðja mánuð án launa og horfir upp á vinnustaðinn sinn í vandræðum. Það gerir enginn átakalaust innra með sér. Þetta er gríðarlegt álag á fólk. Höggið þegar verkfallsrétturinn er numinn brott er mjög mikið þannig að þetta er mjög alvarleg gjörð. Ég ætla að koma að því undir lok máls míns, sem er nú ekki ýkjalangt, ég á eftir rúmar 11 mínútur. En ég verð að segja að mér finnst grunnurinn að því að leysa þessa deilu vera að skilgreina hana rétt.

Ráðherrar í ríkisstjórn hafa sagt að þeir vonuðust til þess að niðurstaða næðist í samningum. Ég segi: Það er engin von til þess, engin ef ekki verður grundvallarbreyting í afstöðu til samninganna. Og hvað er það sem fjötrar menn? Það eru ákvæði sem sett voru inn í kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, rauð strik sem eiga að binda vinnumarkaðinn og ríkisstjórnina að öðru leyti. Það er vandinn. Það þarf einhvern veginn að höggva á þennan hnút. Í fyrsta lagi segi ég: Það er siðlaust ákvæði í þessum samningum. Það er siðlaust að binda opinbera geirann og ríkisvaldið á höndum og fótum með þessum hætti. Út frá siðferðilegu sjónarmiði er ríkisstjórnin ekki bundin. Hún getur metið hvað þetta gæti þýtt. Það eru hagkvæmnisrök og praktík, en siðferðilega tel ég hana ekki vera bundna. En hvað er það sem veldur því að menn telja skynsamlegt að almenni markaðurinn ákvarði kjör innan opinbera geirans?

Eftir því sem ég skil málið best er teflt fram þrenns konar röksemdum: Í fyrsta lagi er sagt að opinberi geirinn sé ekki hluti af hinum eiginlega vinnumarkaði. Ég er ekki að leggja ríkisstjórninni þessi orð í munn, alls ekki, ég er að vísa til almennrar umræðu sem maður heyrir oft og jafnvel að opinberi geirinn sé á framfæri annars hluta atvinnulífsins. Því er til að svara að það er rökleysa, það stenst náttúrlega engan veginn. Það eru starfandi smiðir og afgreiðslufólk í búðum og fólk sem vinnur á dekkjaverkstæði og í margvíslegum þjónustugeirum sem við höfum þörf á ekkert síður en þeim sem vinna á sjúkrahúsum, í skólum, við þurfum öll hvert á öðru að halda. Við myndum eina samfellu, heildstæðan vinnandi markað í samfélaginu þar sem við þurfum hvert á öðru að halda, þannig að þessi röksemd stenst ekki.

Síðan er önnur röksemd. Hún er þessi: Ef við ætlum að tryggja fulla atvinnu í landinu má ekki ofgera fyrirtækjum með því að þvinga þau til að greiða laun umfram raunverulega getu þeirra. Þeir sem sitja við borðið af hálfu atvinnurekenda hjá Samtökum atvinnulífsins hafa puttann á púlsinum og skilja best þessar staðreyndir. Því er oft teflt fram með þessum hætti. En þá segi ég: Er rétt að láta þá sem eru í forsvari fyrir fyrirtæki, sem eru fyrst og fremst drifin áfram af hagnaðarvon, stýra launastiginu í landinu? Við erum búin að heyra það að undanförnu hvernig sjávarútvegsfyrirtækin hafa verið að greiða eigendum sínum mikinn arð en síðan staðið með hortugheitum gegn launakröfum almenns launafólks. Mín niðurstaða er sú að það eigi ekki að vera í hendi sjálftökumanna í atvinnurekstri sem eru síðan ósvífnustu nirflar landsins þegar kemur að kjörum annarra, það á ekki að vera í hendi þeirra að ákvarða launastigið á sjúkrahúsum Íslands þannig að ég tel að þessi röksemd standist ekki. Launafólki í Starfsgreinasambandinu tókst að knýja fram samninga með hótun um samstöðu í verkfallsaðgerðum og mjög góðum málflutningi. Það hefur ekki alltaf tekist. Það hafa ekki alltaf verið settar fram stífar kröfur af hálfu launafólks og menn á þeim markaði hafa ekki náð þeim árangri sem menn hefðu helst viljað þannig að það launastig sem þarna er tryggt getur ekki verið einhver vegvísir inn eftir sjúkraganginum eða í skólastofum landsins eða í öðrum þjónustustofnunum.

Síðan er í þriðja lagi vísað til þess sem gerist á Norðurlöndum. Menn segja: Á Norðurlöndum reyna menn að hanna kerfi sem er þannig gert að fyrst semur almenni markaðurinn og síðan kemur opinberi geirinn, hann kemur á eftir. En þá segi ég tvennt: Í fyrsta lagi er ekkert einhlítt um hin norrænu kerfin þó að víða sé viðleitni í þessa átt til að búa til slíkan ramma. En í öðru lagi er ekki saman að jafna launaumhverfinu hjá okkur og því sem gerist hjá Norðurlöndum að því leyti að umsamin taxtalaun endurspegla síður veruleikann í launaumslaginu úti í þjóðfélaginu en gerist á Norðurlöndum. Umsaminn launataxti, sérstaklega á almennum markaði, er miklu lægri en sem nemur raunveruleikanum í launaumslaginu. Þess vegna er rangt að binda opinbera markaðinn við það sem gerist í samningum um þennan lága launataxta.

Síðan er eitt að lokum í þessum samanburði. Tekist er á um hvers konar launaumhverfi við erum að skapa. Ætlum við að búa við taxtalaunakerfi þar sem sjúkraliðar, kennarar, hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar og aðrar starfsstéttir búa við svipuð kjör eða ætlum við að semja um lágmarkslaun og hafa síðan einstaklingsbundin laun þar á ofan? Ég spyr: Halda menn að Íslendingar sem eru starfandi á hinum almenna markaði vilji búa kennurum barna sinna eða hjúkrunarfólkinu á heilsustofnunum landsins launaumhverfi af því tagi sem byggir á geðþóttaákvörðunum? Launakerfi sem byggir á einstaklingsbundnum launum tryggir og styður vald forstöðumanna sem hafa þá slíkar ákvarðanir í höndum sér. Ef við tryggjum ekki að launakerfið sé í einhverju samræmi við hugmyndir okkar og þeirra sem starfa í kerfinu um réttlæti er illa komið.

Að lokum þetta með verkfallið. Menn hafa sagt að verkfallsaðgerðir séu leið til að beita þvingunum, en þvingunin er af því tagi að fólk ákveður að leggja niður störf, leggja niður vinnu launalaust. Gleymum því aldrei. Ég hef aldrei haldið því fram að þegar menn setjast við samningaborð, hvort sem er hjá ríki, sveitarfélögum eða á almennum markaði, sé eðlilegt að orðið sé við öllum kröfum þegar í stað. Nei. Menn reyna að finna einhverjar sanngjarnar lausnir, hlusta á rök o.s.frv. Ef fólki er hins vegar svo misboðið að það vill ekki sætta sig við þau kjör sem því eru búin eða boðin hefur það þann möguleika að leggja niður vinnu án launa, gleymum því ekki; án launa. Og lengd verkfalla og stuðningur við slíkar aðgerðir er mæling á þennan öryggisventil, að þegar fólk er búið að vera í verkfalli eins lengi og raun ber vitni núna eru það skýr skilaboð til okkar frá fólkinu, og ég er að tala um okkur öll, ég er að tala um fjárveitingavaldið. Fólkið segir: Nei, við erum ekki tilbúin að starfa á þeim forsendum sem lagt er upp með. Við verðum þá að taka það alvarlega. Að segja svo í fjölmiðlum úr Stjórnarráðinu að menn séu að vonast til að fólk nái saman o.s.frv. — að sjálfsögðu er engin von til þess, engin nema grundvallarbreyting verði þar á. Ég held að við þurfum að losa okkur út úr þeirri spennitreyju sem búin var til á almennum markaði og ég held því fram að það séu ekki siðferðileg rök að horfa til hennar, að menn séu ekki þvingaðir að því leyti. Ég held að það sé ekki heldur í samræmi við þjóðarviljann. Þó að einhverjir einstaklingar í forustu verkalýðssamtaka og Samtaka atvinnulífsins hafi getað komið sér saman um slíka formálaeiningu er það ekki í samræmi þjóðarvilja á Íslandi, það er það ekki, ég leyfi mér að fullyrða það. Ríkisstjórnin á þess vegna ekki að vera siðferðilega bundin af slíkum þvingunum sem almenni markaðurinn er að reyna að þröngva upp á hana. Mér finnst að það þurfi að horfa raunsætt á þessa hluti vegna þess að við leysum þessa deilu aldrei. Við leysum hana ekki með ofbeldi því að lögin eru náttúrlega einhliða ofbeldi ríkisvaldsins. Við leysum deiluna ekki, hver sem kemur að lausninni, nema við skiljum eðli hennar (Forseti hringir.) og hvers vegna hún er hlaupin í þann rembihnút sem raun ber vitni, því miður.