144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Áfram á að setja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu og það að ósekju, það er alger óþarfi. Hvers vegna segi ég hættu? Ef sett eru lög samkvæmt þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar á verkfall heilbrigðisstarfsmanna eftir að þeir eru búnir að tjalda öllu til og fara í verkfall þá eru miklar líkur á því að þeir fari úr landi. Hvers vegna og var þetta fyrirséð?

Stjórnvöld hafa þurft að standa frammi fyrir því að leysa deilur við heilbrigðisstarfsmenn og lækna í vetur og þau vita alla þessa hluti. Þau vita hvað það er sem heldur í heilbrigðisstarfsfólk. Menn vita að sérfræðingarnir eru hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu en þeir vita jafnframt að hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar og aðrar heilbrigðisstéttir sem eru í verkfalli eru stoðir þess, stuðnings- og taugakerfi eins og því hefur verið lýst. Þetta eru nauðsynlegir þættir ef við ætlum að hafa fyrsta flokks heilbrigðiskerfi.

Það er reynt að halda því fram hérna að frumvarpið sé nauðsynlegt vegna þess að annars komi upp hættuástand á spítölum landsins. Já, það er hættuástand í heilbrigðiskerfinu. En það eru tvær leiðir færar til að leysa þetta hættuástand. Önnur leiðin sem er mjög skammgóður vermir og mjög skammvinn lausn er að samþykkja frumvarpið sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um að setja lög á verkföll. Það munu örugglega ekki margir segja upp strax en það er hætta á því, það er mikil hætta á því að margir muni segja upp í kjölfarið, það er hættan og hæstv. heilbrigðisráðherra jánkar því, það er hættan. Þá erum við ekki lengur með fyrsta flokks heilbrigðiskerfi en margt af þessu hjúkrunarfólki og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem á núna að setja lög á fer úr landi eða leggur niður störf og tekur upp önnur störf hérna í landinu. Þetta virðist ekki vera raunveruleg lausn. Það sem er hægt að gera aftur á móti, hin leiðin sem er lausn bæði til skemmri og lengri tíma, er að hækka launin, forgangsraða skattfé. Ríkisstjórnin gerði góðan hlut með því að forgangsraða í kringum 4 milljörðum til læknanna, sérfræðinganna, í janúar. Það þurfti að vísu verkföll til og biðlistar söfnuðust upp, það var kannski ekki skynsamlegt en á endanum sá ríkisstjórnin að sér. Samningur náðist við lækna, kostaði 4 milljarða og landsmenn hafa sagt á mjög afgerandi hátt að þeir vilji forgangsraða skattfé sínu til heilbrigðiskerfisins, afgerandi, 90%, sama hvort þeir eru í Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki, sama hvort þeir eru í kjördæmi hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eða kjördæmi heilbrigðisráðherra, óháð aldri, óháð búsetu, óháð efnahag, óháð menntun, óháð kyni. Það er óháð öllu, allir landsmenn vilja forgangsraða í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. En ef við samþykkjum þetta frumvarp hefur hæstv. heilbrigðisráðherra samþykkt það að við setjum heilbrigðiskerfið í hættu.

Hin leiðin er að stjórnvöld, sem hafa að sjálfsögðu heimildir til þess, forgangsraði skattfé landsmanna eins og landsmenn vilja og borgi hjúkrunarstarfsfólki og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem er í verkfalli núna hærri laun, gangi betur að kröfum þess, gangi það vel að kröfum þess að það vilji vera hér á landi. Það gæti kostað okkur hátt í 4 milljarða. Það voru 4 milljarðar fyrir læknana, 800 stöðugildi, það gæti kostað okkur hátt í aðra 4 milljarða fyrir hjúkrunarfræðinga sem eru tvöfalt fleiri, samt sem áður sama upphæð. Það er enginn efi í mínum huga um að landsmenn eru tilbúnir að forgangsraða skattfé sínu þangað. Og hvers vegna ekki? Höfum við ekki efni á þessu? Jú, við höfum efni á þessu. Fjárlög eru hallalaus upp á 3,4 milljarða. Samkvæmt frumvörpum sem voru lögð fram í fyrradag og rædd í tvo daga um afnám hafta mun vaxtabyrði ríkissjóðs strax og það er komið í gegn eftir eitt ár lækka um rúma 7 milljarða. Við höfum efni á þessu. Við höfum efni á því að forgangsraða skattfé í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi með því að gera betur við samningsaðila og hækka laun heilbrigðisstarfsmanna þannig að þeir vilji vera hérna.

Fyrst þetta liggur svona ljóst fyrir hvers vegna erum við þá með þetta mál í þinginu í dag? Það er tvennt sem mér dettur í hug. Í rauninni er það svo afgerandi betri lausn að forgangsraða skattfé til heilbrigðiskerfisins eins og allir landsmenn vilja og er skammtíma- og langtímalausn, hjálpar sjúklingum strax sem fá þá heilbrigðisþjónustuna og við tökum út áhættuna í heilbrigðiskerfinu strax og leysum langtímavandamálið þannig að við missum ekki heilbrigðisstarfsfólkið úr landi í staðinn fyrir að setja þessi lög sem keyra okkur bara áfram niður í áttina að annars flokks heilbrigðiskerfi. Það er mikil hætta á því. Það er ekki 100% víst en það er hætta á því. Hvers vegna erum við hérna með þetta frumvarp? Þá spyr maður sjálfan sig: Er þetta bara vanræksla eða sjá menn þetta ekki? Jú, menn sjá þetta, heilbrigðisráðherra kinkar kolli og segir: Það er hætta á þessu o.s.frv. Er þetta eitthvert egó eða hvað? Nei, ég get ekki séð það. Gæti það kannski verið að menn séu að skapa sér stöðu? Við bara setjum lög á verkföll. Thatcher gerði það, hún tók sér svona stöðu, sagði: Þetta kemur ekki til greina, þið brjótið mig ekki á bak aftur, þetta er bara svona. Kannski. Kannski er það málið. En þá eru menn að skapa sér þá stöðu og borga fyrir með því að setja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu. Eru menn meðvitað að reyna að skemma íslenskt heilbrigðiskerfi eða grafa undan því til að auðvelda einkavæðingu? Það er eins og Noam Chomsky talar um að þetta sé viðvarandi þema þegar menn vilji einkavæða einhverja þjónustu sem hið opinbera veitir, viðvarandi þema, alls staðar í heiminum, það er að grafa svo undan þjónustugeira ríkisins, í þessu tilfelli heilbrigðismálum, að réttlætingin fyrir einkavæðingunni kemur. Það getur verið ein ástæðan. Það er svolítið sóðalegur leikur. Menn eru þá að leika sér að sjúklingum og þá er fólk að leika sér að því starfsfólki sem hefur tileinkað líf sitt því að hjúkra öðrum. Það væri mjög ljótur leikur.

Þetta er svona það sem kemur helst upp í kollinn á mér og fer í gegnum hugann um stefnumótun þessarar ríkisstjórnar, en sjáum hvað ríkisstjórnarflokkarnir sögðu fyrir kosningar. Framsóknarflokkinn sagði, með leyfi forseta:

„Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Ég gæti ekki orðað þetta betur sjálfur. Hvað segir hæstv. ráðherra um þetta? Er þetta ekki bara málið? Forgangsröðum skattfé þangað sem landsmenn vilja eins og þið lofuðuð í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi og meginþáttur þess er starfsfólkið.

Hvað sagði Sjálfstæðisflokkurinn? Við getum farið í gegnum allan pakkann. Í ályktun velferðarnefndar fyrir landsfundinn segir að leggja verði ríka áherslu á breytta forgangsröðun varðandi fjárveitingar með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta. Þetta ratar inn í stefnuyfirlýsingu landsfundarins. Þar segir: „Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að tryggja öryggi og velferð landsmanna með því að tryggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi.“ Örugg heilbrigðisþjónusta er nefnd þar fyrst. Þetta er allt saman þarna. Ef þið bara fylgið ykkar eigin stefnu, þá er þetta borðliggjandi. Annað sem er sagt í ályktun velferðarnefndar er: „Það skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólkið okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðisgeirans.“

Það er alveg ljóst að lög á verkfall heilbrigðisstarfsmanna eru ekki nauðsynleg. Við höfum efni á að fara aðra leið, landsmenn vilja fara aðra leið, stjórnarflokkarnir hafa lofað að fara aðra leið, fyrir kosningar að vísu. Það er alveg ljóst að þetta setur fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu og það er alveg ljóst að fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er ekki forgangsatriði þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnarflokkarnir berja sér á brjóst og segja að í fjárlögunum hækkuðu þeir Landspítalann um milljarð. Þetta er rétt en það vantaði samt 3 milljarða samkvæmt forsvarsmönnum allra heilbrigðisstofnana í landinu til að geta veitt nauðsynlega þjónustu að þeirra eigin sögn. Við þekkjum þær upplýsingar, höfum það skýrt frá þeim við vinnslu breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið. Þau svöruðu öll, það var alveg skýrt. Krónan kaupir ekki það sama og hún gerði þannig að þó að menn tali jafnvel í krónutölu, framlagið hafi aldrei verið meira í krónutölu, þá kaupir krónan bara ekki það sama núna, það vita allir. Krónutölurnar eru ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er: Kaupa þessar krónur nógu mikið til að hægt sé að veita fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu? Það er ekki forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Það er kýrskýrt.