144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Nei, ég hef ekki tekið eftir því.

Annað: Stjórnsýslan fór af stað með aðilum vinnumarkaðarins í ferðir um Norðurlönd og skrifaði skýrslu í kjölfarið um norræna rammalöggjöf um farsæla gerð kjarasamninga, kallað norræna leiðin. Ég hef rætt þetta nokkrum sinnum hérna við hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef reynt að toga það upp úr ráðherranum, en þetta verkefni er í startholunum enn þá. Ég hef ekki náð að toga upp úr ráðherra hverjir áfangarnir séu. Það á að fara að skipa einhvern einn aðila núna eða eitthvert eitt ráð, kjararáð eða eitthvað svoleiðis. Það er allt og sumt. Það eru tvö ár síðan. Þetta er fyrir séð. Ráðherra er sjálfur búinn að segja að vinnumarkaðsmódelið okkar sé í molum. Samt er ekki sett í forgang að skapa ramma utan um farsæla gerð kjarasamninga sem hefði forðað okkur frá þessari stöðu núna. Það er eitt. Hvert sem maður lítur þá er ekki verið að setja í forgang að skapa ramma utan um fyrsta flokks heilbrigðiskerfi hérna. Það hryggir mig mikið.

Það eru tvö ár í kosningar. Það er eitt og hálft ár í að maður fari í kosningabaráttu. Ofboðsleg mikið af biðlistum hafa hrannast upp, rannsóknir eru komnar á biðlista, sjúklingar eru komnir á biðlista. Ég veit ekki hvort við séum enn þá með fyrsta flokks heilbrigðiskerfi, en við vorum með það þegar þessi ríkisstjórn tók við. Það var hægt að forgangsraða fjármunum til að halda í það. Við byggðum það upp þegar við vorum miklu fátækari þjóð. Við höfum efni á því í dag. Það er svigrúm. Það var svigrúm á fjárlögum síðast. Þessi ríkisstjórn forgangsraðar ekki þannig. Það er stutt í kosningar og þegar kemur að kosningum og við verðum ekki með fyrsta flokks heilbrigðiskerfi lengur í aðdraganda kosninga — það er gert út frá mælikvörðum, við höfum verið að mælast með alla mælikvarða græna í alþjóðlegum mælikvörðum sem landlæknir benti mér á þegar ég talaði við hann (Forseti hringir.) um jólin — þá er það núverandi stjórnvöldum (Forseti hringir.) að kenna.