144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er komið fram er tekið til umræðu á þinginu með afbrigðum vegna þess að ríkisstjórnin taldi óhjákvæmilegt að bregðast við þeirri stöðu sem er upp komin, sem afleiðing af langvarandi verkföllum hjá BHM annars vegar og hins vegar sem afleiðing af þeim verkföllum sem hjúkrunarfræðingar hafa verið í undanfarna daga, þótt þau hafi ekki staðið jafn lengi í tíma en nú erum við komin á 10. viku verkfalls BHM. Viðræður hafa staðið yfir við báða þessa hópa, ekki bara frá því að verkföll hófust heldur þó nokkuð lengur og því miður hefur ekki enn tekist að fá niðurstöðu í þær viðræður sem báðir aðilar geta sætt sig við. Það er hins vegar ekki rétt sem margoft hefur komið fram í umræðunni í dag, að það sé vegna þess að umboð samninganefndar ríkisins sé ekkert, að það hafi staðið til að svelta viðmælendur okkar til niðurstöðu eða að það hafi aldrei verið neinn samningsvilji af hálfu ríkisins. Þetta er allt saman rangt.

Það er hins vegar ekkert launungarmál að af hálfu ríkisins er gengið til viðræðna eins og þeirra sem hér er um að ræða með hliðsjón af því hvað raunhæft er að gera hverju sinni og þá er einkum litið til þess sem almennt er að gerast í kjaramálum og að öðru leyti telst forsvaranlegt með hliðsjón af ríkisfjármálunum í víðara samhengi.

Þó að þessu frumvarp sé ekki ætlað að binda enda á samningalotuna, og þá er ég að vísa til þess að það er beinlínis út frá því gengið í frumvarpinu að viðræður aðila haldi áfram, heldur sé því fyrst og fremst teflt fram til að forða afleiðingum verkfallanna, það er aðalatriði þessa máls, þá ætla ég engu að síður að verja nokkrum orðum í stöðu viðræðnanna. Ég hef orðið þess var að þær hafa verið mikið kjarnaatriði í mörgum ræðum í dag.

Það er kannski fyrst til að taka að því er haldið fram að þessi ríkisstjórn geti ekki gert kjarasamninga. Það er samt ekki lengra síðan en í upphafi þessa árs sem gerðir voru kjarasamningar af þessari ríkisstjórn við lækna og síðan er hægt að líta til síðasta árs þegar ríkisstjórnin gerði kjarasamninga við þær sömu stéttir og eiga hér í hlut, þ.e. BHM, og þá voru líka gerðir samningar við önnur stéttarfélög og var ríkisstjórnin lengi vel gagnrýnd af bæði opinberum starfsmönnum að hluta til og aðilum vinnumarkaðarins fyrir það hversu langt var gengið í þeim einstöku samningum sem þar voru undir. Oftar en ekki hef ég þurft að koma hingað upp og verja þá niðurstöðu út frá ýmsum sjónarhornum, en ég nefni þessi dæmi vegna þess að þau eru nýleg og þau eru til vitnis um að ríkisstjórnin hefur nýlega leitt niðurstöðu í viðræðum við opinbera starfsmenn.

Í þessum tilteknu málum hér er það sérstaklega erfitt að þau félög sem eiga undir fara opinberlega fram á að það verði ekki einungis gengið til samninga um kjarabætur sem eru í líkingu við það sem almennt er að gerast um þessar mundir á vinnumarkaði. Það kemur skýrt fram, síðast í viðtölum í dag, að ekki komi til greina að samþykkja að kjarabætur sem eru líkar því sem samið var um á almenna markaðnum. Það er yfirlýst stefna. (Gripið fram í.)Þegar því sleppir, sem sagt að krafan er umfram það sem almennt er verið að semja um um þessar mundir, er vísað til þess að það hafi safnast upp yfir langan tíma misgengi fyrir einstaka hópa innan félaganna eða jafnvel fyrir heilu stéttirnar gagnvart öðrum stéttum. Svo tekið sé dæmi af því sem haldið er á lofti af hjúkrunarfræðingum þá telja þau sig vera 14–25% á eftir öðru háskólamenntuðu fólki í landinu í kjörum. Þó er það þannig að það er tiltölulega skammt síðan síðasti kjarasamningur var gerður við þennan hóp.

Ég hef haft þá nálgun að líta verði þannig á að báðir aðilar beri alltaf ábyrgð á samningum þegar þeir eru gerðir. Hér er verið að vísa til misgengis og þróunar, sem ég ber fulla virðingu fyrir að félagsmenn séu ósáttir við, en hún hefur átt sér stað yfir mjög langt tímabil. Í raun og veru er krafan sú að þetta misgengi, sú þróun verði leiðrétt núna í einum samningi. Það er risastórt vandamál. Það er krafa sem er mjög erfitt að verða við, alveg sama hver er í ríkisstjórn á hverjum tíma. Það sér það hver maður að ef til dæmis samningar við hjúkrunarfræðinga eiga að snúast um það annars vegar að tryggja sambærilegar hækkanir til þeirra og almennt er verið að semja um, hvort sem vísað væri til almenna markaðarins eða til þess sem er að gerast hjá BHM, og (Gripið fram í: Þó ekki lækna.) í því sambandi er verið að tala um hækkanir á tiltölulega skömmum tíma sem eru, ég hef gjarnan sagt einhvers staðar á bilinu 15–20% án þess að ég ætli að vera með nákvæmar tölur, við erum að tala um hækkanir einhvers staðar á því bili, hækkanir sem eru langt langt umfram það sem nokkur önnur þjóð í nágrannaríkjum mundi vera að semja um, þá er krafan sú að þegar það er komið í samninginn eigi eftir að bæta misgengið sem ég var að vísa í áðan, upp á 14–25%. Þetta á að laga í þessum samningi.

Þetta er ég að tína hér til til að sýna hversu hátt menn spenna bogann og hversu ósanngjarnt það er að halda því fram í umræðunni almennt, hvort sem er inni í þessum sal eða í almennri umræðu um þessa stöðu, að ríkið sé ekki viljugt til að leysa málin og samninganefnd ríkisins hafi ekkert umboð. Það er af og frá. Ég ætla ekki að fara lengra inn í það að reyna að lýsa minni sýn á kröfugerð þessara hópa. Ég er aðeins almennt að benda á að það er farið fram á hvort tveggja í senn núna; leiðréttingu á misrétti sem hefur átt sér stað yfir langan tíma, og á því tímabili hefur verið gerður fjöldinn allur af samningum sem mér finnst eins og menn séu að lýsa sig óábyrga af, og um leið verið að fara fram á hækkanir, sem ég geri engar athugasemdir við og er eðlilegt að samið sé um, enda lít ég þannig á að ríkið hafi boðið slíka samninga.

Þrátt fyrir að það sé afar krefjandi verkefni að ná saman við þessar aðstæður, þegar gerðar eru þetta miklar kröfur, ætla ég samt sem áður að lýsa því yfir að ég tel að það sé leið út úr þessu, það sé hægt að ná samkomulagi. Það samkomulag verður hins vegar að vera innan þess ramma sem okkur er settur almennt af öðrum samningum sem ríkið er að gera og getur gert (Gripið fram í: Þó ekki lækna.) og samið er um á almennum markaði og að öðru leyti væri hægt að horfa til þess hvaða áherslur stjórnvöld geta komið með inn í þá málaflokka sem hér eru undir sérstaklega. Eitt af því sem einkum er kvartað undan í þessari lotu er til dæmis það hversu mjög hefur verið skorið niður hjá einstaka stofnunum. Það eru ekki nema rétt rúm tvö ár síðan hjúkrunarfræðingar sögðu upp með fjöldauppsögnum, en eins og menn kannski muna eru í gildi kjarasamningar hjá hjúkrunarfræðingum. Það voru sem sagt fjöldauppsagnir en í gildi samningur sem var þá innan við tveggja ára gamall. Hvers vegna kom þetta ástand upp? Þetta ástand kom upp vegna þess að búið var að ganga svo nærri þeim stofnunum þar sem hjúkrunarfræðingar störfuðu, sérstaklega á Landspítalanum, að allt þeirra kjaraumhverfi var í raun og veru í uppnámi þrátt fyrir að enn væri greitt samkvæmt kjarasamningi. Það var búið að breyta vöktum, það var búið að snúa öllu á hvolf, það var búið að færa allt yfir á dagvinnutímann og svo var búið að þrengja að í starfsumhverfinu með ýmsum öðrum hætti. Þetta er ekki nýtilkomið, þetta er vandi sem hefur safnast upp yfir langan tíma. Ég heyri því haldið fram í umræðunni að ríkisstjórnin hafi ekkert viljað sýna lit og ekkert gera í þessu. Samt er það nú svo að fyrir áherslur heilbrigðisráðherra höfum við til dæmis forgangsraðað í þágu aukinna fjárveitinga til Landspítalans þannig að við höfum aldrei áður sett meiri fjármuni inn á þann spítala heldur en nú og við höfum með sérstökum viðbótum við fjárlagafrumvarpið síðastliðin tvö ár sett milljarða í innspýtingu til Landspítalans í samræmi við aukið svigrúm sem við höfum haft í ríkisfjármálunum.

Nú höfum við boðað útboð fyrir uppbyggingu á Landspítalanum og ef menn skoða tölurnar og skoða þær af sanngirni er ekki hægt að gera einhvern ágreining um þetta. Það er búið að vera að forgangsraða stórauknum fjármunum til heilbrigðisgeirans. En það er nóg eftir samt sem áður, það er alveg rétt. Það á enn eftir að halda þeirri uppbyggingu áfram. Það mun þurfa að setja aukna fjármuni í heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og það mun líka þurfa að setja áfram aukið fjármagn í heilsugæslu og stærri heilbrigðisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. En það er hins vegar rangt að menn hafi ekkert viljað gera og ætli sér ekkert að gera. Við þurfum einfaldlega að sameinast um það að stíga eitt skref í einu en hvert á eftir öðru í sömu áttina, þ.e. að þetta gerist smám saman með jöfnum eðlilegum skriðþunga. Það er ekki hægt að leysa þetta í einum kjarasamningi á einu ári til langrar framtíðar, það mun ekki gerast þannig.

Ég ætla líka að lýsa þeirri skoðun minni, sem ég hef oft áður komið inn á, að sú aðferðafræði sem við höfum byggt upp á undanförnum árum er algerlega gengin sér til húðar, að það sé hvert félag fyrir sig að fara í verkfall út og suður og ríkið hafi alla þessa aðila til að tala við. Það gengur ekki upp. Eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur komið inn á hef ég margoft lýst yfir vilja til að ganga til þessa verks. Það má vel vera að mönnum þyki að það hafi ekki gengið nægilega hratt en ríkið getur ekki eitt þrýst á eða knúið á um niðurstöðu í því. Vinnumarkaðurinn verður að koma með. Og það er kominn tími til að menn setjist yfir það af fullri alvöru.

Örstutt um efnisatriði málsins. Þetta mál snýst fyrst og fremst um það að forða áhrifum verkfallsins. Það er ekki verið að banna mönnum að semja. Það er beinlínis gengið út frá því hér að áfram verði látið reyna á samninga til næstu mánaðamóta og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á að hægt sé að ná niðurstöðu gagnvart heilbrigðisstéttunum og öllum öðrum sem eru undir. Þá aðeins um þann punktinn. Það er sérstaklega vikið að því í greinargerðinni að það er vegna þess að menn koma sameiginlega til þessara aðgerða sem gildissvið frumvarpsins er jafn breitt og kemur fram í lagagreininni og í skýringum, þ.e. þegar menn vilja semja sameiginlega og fara sameiginlega í aðgerðir er eðlilegt að frumvarp eins og þetta bregðist við því með sambærilegum hætti.

Hvað snertir gerðardóminn má í sjálfu sér hafa ólíkar skoðanir á því. Ég geng út frá því að í nefnd muni menn fara vandlega yfir þann þáttinn. Ég er hins vegar ekki sammála því sem hér hefur komið fram að með þessu sé gengið mjög freklega inn á stjórnarskrárvarinn rétt manna til að beita verkfallsvopninu eða inn á samningafrelsið. Ég er ekki sammála því. Ég tel að það sé vel réttlætanlegt að byggja gerðardómsákvæðið með þessum hætti. Ég er ekki að segja að allar aðrar leiðir séu vonlausar en mér finnst það vel réttlætanlegt og hér er gengið út frá því að annar armur í þrískiptingunni komi að skipun gerðardómsins og hann komist að niðurstöðu um bæði efni og lengd samninganna. Hér erum við einfaldlega með frumvarp sem er nauðsynlegt að leggja fram (Forseti hringir.) til að forða áhrifum verkfallsins, eins og við öll þekkjum eru þau hrikaleg inni í heilbrigðiskerfinu og svo víða annars staðar í samfélaginu. Það er einfaldlega ekki hægt að horfa upp á það lengur að fólk fái ekki nauðsynlega aðhlynningu (Forseti hringir.) þrátt fyrir að menn hafi ekki náð saman í kjarasamningum. Og það er heldur ekki hægt að halda því fram í umræðunni að lausnin (Forseti hringir.) sé einfaldlega sú að ríkið gangi að þeim kröfum sem það stendur frammi fyrir.