144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að það væri ósanngjarnt að segja að ríkið vildi ekki leysa málið og hafi ekki viljað leysa málið meðan á verkfallsaðgerðum hefur staðið. Ég skil ekki alveg orð hæstv. ráðherra vegna þess að hann hefur staðið hér sem og forsætisráðherra og sagt okkur á Alþingi að þeir hafi ekki gert neitt vegna þess að þeir hafi verið að bíða eftir almenna markaðnum. Svo skilar almenni markaðurinn niðurstöðu sinni í byrjun síðustu viku eða innan síðustu tíu daga og það er þá sem menn láta til skarar skríða og koma með lagasetningu. Hvað var boðið eftir að niðurstaða lá fyrir á almenna markaðnum í þeirra deilum? Hvað gerði ríkið eftir að þeirri deilu lauk og hvað var það sem mönnum var boðið í þessari deilu, þ.e. BHM og hjúkrunarfræðinga?

Það er nefnilega ekki ósanngjarnt að segja að ríkið hafi beðið ef eingöngu er hlýtt á orð hæstv. ráðherra hér sem vísuðu alltaf málinu frá sér aftur og aftur (Forseti hringir.) og sögðu að þetta mál væri ekki í þeirra höndum heldur þyrfti að bíða eftir almenna markaðnum.