144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig hafa sýnt fram á það hér margoft að við höfum einmitt forgangsraðað í þágu heilbrigðiskerfisins. Það er enginn málaflokkur sem hefur fengið umfram það inn í stofnanakerfi ríkisins sem runnið hefur til heilbrigðiskerfisins og það hleypur á milljörðum. Í einu fjárlagafrumvarpinu er bætt við 3 milljörðum bara inn á Landspítalann, bara þangað inn. Ef fara á eftir þeirri aðferðafræði að hækka suma hópa umfram aðra þá enda menn í svona leik eins og hægt er að fara í í Tívolíinu í Kaupmannahöfn þar sem ormur kemur upp úr holu, þú heldur á hamri, þú lemur hann og hann sprettur upp einhvers staðar annars staðar og leikurinn heldur áfram þangað til tíminn er búinn, nema hvað að í þessum leik sem við lifum í hér rennur klukkan bara ekkert út. Þú munt aldrei hitta síðasta orminn í hausinn.

Þetta er sú aðferðafræði sem gildir í dag á íslenskum vinnumarkaði, þetta er módelið. Það er endalaust kapphlaup um að ná meiru en næsti og svo heldur leikurinn áfram (Forseti hringir.) þegar næsti kjarasamningur rennur út. Það þarf að komast út úr þessu yfir í skandinavíska módelið þar sem menn taka faglega umræðu um það hvert svigrúmið er í raun og veru og ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það.