144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við þessari spurningu er já. Við höfum lýst vilja til að gera breytingar á endurgreiðslufyrirkomulagi námslána og höfum margítrekað boðið upp á samtal um það. Það hefur skipt miklu minna máli en önnur atriði. Það hefur skipt meira máli í tilfelli BHM að menntun sé metin til launa og gerðar séu kerfislægar breytingar til að sýna fram á það. Kannski er inntak þess samtals ákveðin átök milli áforma um að sýna það í verki en ganga á sama tíma ekki svo langt að prófgráðan ein og sér sé það sem skiptir máli heldur meira færni og hæfni í starfi og það er dálítið flókið úrlausnarefni. Hjá hjúkrunarfræðingum hefur á hinn bóginn minni áhersla verið lögð á þetta atriði, þ.e. endurgreiðslubyrði námslána, en meiri áhersla lögð á það misgengi í launum gagnvart öðru háskólamenntuðu fólki sem ég vék að áðan. (Forseti hringir.) Þar er í raun og veru grunnkrafan sú að fá sambærilegar hækkanir og aðrir og svo leiðrétta þessi 14–25% og það sýnist mér að þurfi að gerast í þessum samningi.