144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hefur verið lagt á borðið. Mig langar að ítreka þá spurningu hvað hafi verið lagt á borðið varðandi innspýtingu heilbrigðisþjónustunnar. Liggja áþreifanlegar tillögur þar fyrir og ekki bara einhver almenn orð um að að þessu verði hugað í fjárlögum?

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í það sem spurt var um áðan sem varðar tímarammann á gerðardóminum. Hér hefur verið bent á að í greinargerð með frumvarpinu er vitnað til ákveðinna mælikvarða varðandi það þegar kjarasamningar hafa verið lausir og þess vegna eigi að miða við 1. maí. En væri ekki eðlilegra að miða við áramótin og þá samninga sem stjórnvöld hafa verið að gera frá þeim tíma? Þá erum við auðvitað að tala um læknasamningana í þeim efnum sem væntanlega kæmu til móts við þá kröfu að skoðað væri misgengi milli ólíkra stétta sem hæstv. ráðherra hefur nefnt. Væri ekki eðlilegra að breyta þessari tímasetningu í meðförum þingsins?