144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst það óheppilegt ef kjaraviðræður við einstakar stéttir fara að snúast um framlög til stofnana í komandi fjárlögum eða á næstu árum. Það er hins vegar sjálfsagt að upplýsa um áform okkar og áherslumál á því sviði sem undir er hverju sinni en við getum ekki farið út í tvöfalda fjárlagagerð þar sem við semjum annars vegar um stofnanaframlög í kjarasamningi til að leysa kjaradeilu og förum síðan hins vegar í gegnum umræður á þingi um hver endanleg framlög eiga að vera eða hvort ríkisstjórnin eigi að tefla fram fjárlagatillögum sem eru byggðar á niðurstöðum í kjarasamningum um framlög til einstakra stofnana. Auðvitað hljótum við að vera sammála um að það getur ekki gengið en hluti samtalsins hefur verið að svara því hvernig eigi með að fara vegna þess gríðarlega niðurskurðar sem var hér á árunum eftir hrun til einstakra stofnana. Það er ekkert launungarmál. Sá mikli niðurskurður sem var í ríkiskerfinu er hluti af þeim vanda sem við erum að fást við í þessum viðræðum.

Varðandi gerðardóminn þá hvet ég hv. þingmann til að fara yfir 3. gr. Það (Forseti hringir.) er ekkert sem kemur í veg fyrir það í sjálfu sér að horft sé breiðar yfir sviðið en nákvæmlega frá 1. maí 2015. Ég tel að orðalagið sé svo rúmt að það sé vel hægt að horfa til annarra samninga.