144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það var áhugavert að hlusta á ræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann vísaði til þess að það væri aldrei réttur tími til skattalækkana. En mér sýnist nú aldrei vera réttur tími til þess að auka jöfnuð í þjóðfélaginu. Ég held að það sé frekar á þann veginn að það virðist aldrei vera réttur tími til að leiðrétta kjör þeirra sem hafa lakari kjör og þeirra stétta sem eru undirstaða góðs samfélags eins og umönnunarstéttir eru.

Þær stéttir sem hafa verið í verkfalli hafa sýnt mikla þolinmæði og gegna mjög mikilvægu hlutverki, hjúkrunarfræðingar, dýralæknar og fleiri aðilar sem þar eru undir. Mér finnst umræðan hjá hæstv. fjármálaráðherra vera með ólíkindum og það hvernig hann í raun og veru talar til fólks sem hefur þann stjórnarskrárvarða rétt að berjast fyrir réttindum sínum og kjörum og félagafrelsi sem rímar mjög vel við mannréttindasáttmálann. Það er heilagur réttur í mínum huga að fólk geti staðið á sínum rétti og barist fyrir bættum kjörum.

Mér finnst gæta svo mikillar óþolinmæði hjá stjórnvöldum og pirrings. Þau hafa það ekki í sér að finna fleti á málum og leiða erfiða samninga til lykta. Eðlilega eru samningar milli aðila ólíkra stétta mjög mismunandi og hver samningsaðili hugsar um sig út frá sínum kjörum. Það er mjög eðlilegt. Það er aldrei hægt að samsama almenna vinnumarkaðinum alfarið við ýmsa geira innan hins opinbera. Þannig er það nú bara.

Eins og þetta mál er lagt upp hér eru menn búnir að fá alveg upp í kok. Það fannst mér á ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra sem hefur nú farið ansi hljótt í málflutningi og umræðu um þessi mál. Ekki hefur verið hægt að fá umræðu á Alþingi um alvarlega stöðu í kjaramálum og fá einhverjar upplýsingar um stöðu mála. Það hefur alltaf verið vísað í að samninganefnd ríkisins sé að störfum og menn eigi ekkert að blanda sér í það. Það hefur ekki verið hægt að taka þessa umræðu með einum eða neinum hætti hér inni. Svo er bara hnefinn reiddur og setja á lög á þessa deilu með því að setja hana í gerðardóm sem er eingöngu skipaður aðilum sem Hæstiréttur tilgreinir, en ekki er farin sú leið þar sem báðir aðilar hafa möguleika á að koma að málum með oddamanni. Þetta er allt á forsendum ríkisvaldsins og það virðist ekki vera nokkur skilningur á því að þær stéttir sem eiga í hlut eru ekki að berjast fyrir kjörum sínum í löngu og erfiðu verkfalli í einhverju tómarúmi. Þetta hefur auðvitað kostað þessi félög gífurlega fjármuni úr verkfallssjóðum. Sú mikla samstaða sem er meðal fólks í þessu erfiða verkfalli sýnir að fólki er alvara og því misbýður að ekki sé reynt að mæta kröfum þess með einum eða neinum hætti.

Mér fannst líka hæstv. fjármálaráðherra tala ansi frjálslega um það, út frá ríkinu, að kröfur viðsemjenda væru svo háar og í raun ósanngjarnar að það væri ekki nein leið að mæta þeim með neinu móti því að þá færi bara hjólið af stað og hver mundi koma á fætur öðrum og heimta það sama og þetta yrði vítahringur. Menn sem tala svona eru hreinlega búnir að gefast upp á því verkefni að semja við þann hóp sem tilheyrir opinbera geiranum. Það er auðvitað verkefni sem hvert samfélag þarf að vinna í. Menn eiga auðvitað ekki að gera það á ögurstundu, á síðustu stundu heldur þarf þetta að vera samræða á milli opinbera geirans og viðkomandi stéttarfélaga alveg frá því að skrifað er undir samninga þar til samningar eru lausir. Þetta þarf að vera viðvarandi verkefni.

Ég hefi líka vissar áhyggjur af því hvernig hæstv. fjármálaráðherra og fleiri innan ríkisstjórnarinnar hafa talað um verkfallsréttinn, að hann sé orðinn barn síns tíma og það þurfi að endurskoða hann og aðferðafræðin sé orðin ónýt og allt í þeim dúr. Þegar menn tala svona ofan í svo viðkvæmar aðstæður þá er það stórhættulegt. Það er alltaf hægt að ræða málin á milli samninga við aðrar aðstæður og endurskoða ýmsa þætti í ljósi breyttra aðstæðna og allt það. Þá þurfa auðvitað báðir aðilar að hafa fullt vægi í slíkum viðræðum og vera ekki undir þannig pressu að menn séu á kafi í verkfallsátökum og ríkið stigi þá fram og lyfti því upp í hótunarskyni að það þurfi að fara að endurskoða verkfallsrétt opinberra starfsmanna.

Mér finnst það vera mjög einkennilegt í umræðunni þessa dagana að við séum sem betur fer að komast út úr kreppunni, loksins. Í Kastljósi í vikunni talaði samningamaðurinn knái Lee Buchheit um að við sem þjóð gætum horft fram á bjartari tíma. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að við séum komin á þann stað eftir mjög erfið ár frá hruni. Er það þá ekki eitt af því sem við þurfum að setja í forgang hvernig við skiptum þessari blessaðri þjóðarköku? Ég held það. Við verðum auðvitað að skipta henni með þeim hætti að það sé eitthvert réttlæti á ferð. Það er það sem menn greinir á um. Menn bera sig saman við ýmsa aðra. Það er þessi innbyrðis ójöfnuður á Íslandi sem þarf að leiðrétta.

Ég verð að segja að ég hef ekki verið hrifin af því hvernig seðlabankastjóri hefur stigið fram í þessari umræðu. Mér finnst mjög óeðlilegt þegar hann hefur hótað vaxtahækkunum fram í tímann vegna hættu á þenslu í kjölfar kjarasamninga. Ég veit vel að við þurfum að fara varlega og gæta okkur á því að hér fari ekki af stað þensla almennt í samfélaginu. Þegar umönnunarstéttir, láglaunastéttir og ýmsar stéttir, sem við vitum alveg að eru á allt of lágu kaupi miðað við vinnuframlag og menntun, stíga fram þá er alltaf veifað því flaggi að nú fari stöðugleikinn upp í loft og allt fari í voll. Svo koma hinir sjálfskipuðu hópar í samfélaginu, sem skammta sér sjálfir tekjur og laun, sjálftökuliðið, og þá hrekkur enginn við, hvorki seðlabankastjóri né aðrir. Þá er bara sjálfgefið að menn skammti sér laun, hvort sem það er í fjármálakerfinu eða hjá stórfyrirtækjum í landinu. Það fer ansi hljótt. Það heyrist ekki í seðlabankastjóra að hann hafi gífurlegar áhyggjur. Það er gert á bak við kerfið og fer ekki hátt. Þannig er það bara. Þetta horfir venjulegt fólk upp á, sem þarf að berjast fyrir því að ná endum saman og réttlæta að það skríði yfir 300 þús. kr. í mánaðarkaup eftir margra ára nám í sínu fagi og geri nú meiri kröfur og beri sig saman við hliðstæðar stéttir annars staðar á Norðurlöndum.

Það þykir sjálfsagt að bera sig saman við það sem viðgengst annars staðar á Norðurlöndum varðandi vinnumarkaðsmál. Mér heyrist það á forustumönnum Samtaka atvinnulífsins. Það hefur verið það sem þeir hafa fyrst og fremst flaggað í viðræðum við viðsemjendur sína, að við þurfum að horfa til norræna vinnumarkaðsmódelsins. Gott og vel. Gerum það. Gerum það þá á öllum sviðum. Gerum það líka varðandi kaup og kjör og hvernig velferðarkerfi framtíðar okkar er byggt upp. Setjum markið hátt og stefnum þangað. Við getum ekki stefnt þangað ef við ætlum að fara út í þá vegferð sem þessi hægri ríkisstjórn er farin í á fullri ferð, að lækka og lækka skatta. Mér finnst oft eins og það sé verið að tala við fólk eins og fólk sé fífl. Hvað þýðir að lækka skatta? Það þýðir ekkert annað en það að almenningur þarf þá að greiða sjálfur miklu meira úr eigin vasa fyrir velferðarkerfið, menntakerfið, samgöngurnar og allt sem tilheyrir sameiginlegum rekstri samfélagsins. Það þýðir ekkert annað. En auðvitað eru til hópar sem gleðjast yfir því að menn lækki skatta. Það er kjósendur þessara flokka, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það eru oftar en ekki efnameiri hópar sem glaðir vilja sjá heilbrigðiskerfið þróast í átt til meiri einkavæðingar þar sem þeir komast fyrr að í kerfinu með því að greiða bara fyrir það en hinir sem þurfa að reiða sig á almenna heilbrigðisþjónustu veitta af ríkinu þurfa að fara í röð og mega bara bíða í sinni röð eftir því að það komi að þeim, en þeir sem peningana eiga hafa möguleika á að kaupa sig fram fyrir í röðinni. Þannig er nú kerfið sem við höfum verið að vara við, eins og í Bandaríkjunum. Þessi ríkisstjórn virðist vera að feta sig áfram á þá braut þó að hún hafi reynt að sverja það af sér. En verkin sýna merkin. Það fer ekkert á milli mála að það er verið að snúa öllu hérna á hvolf og keyra inn í hægra samfélag þar sem er ójöfnuður. Það þýðir líka verri vöxt í samfélaginu eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur minnst á og vísað til rannsókna í þeim efnum um að ójöfnuður í samfélagi sé ekki góður til lengri tíma litið þegar horft sé til sameiginlegs hagvaxtar þjóðfélagsins í heild. Þess vegna á að vera metnaður hvers samfélags að reyna að draga sem mest úr ójöfnuði og byggja upp samfélag þar sem fólk getur treyst því að það hafi gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfi almennt og menntakerfi.

Minn tími er nú að verða búinn, hann líður allt of hratt. Ég hef fullan skilning á kjarabaráttu þess fólks sem er í verkfalli og þarf núna að sitja undir því að sett séu á það lög sem bindur hendur þess um ókomna tíð. Það kemur ekkert fram í þessu frumvarpi hve lengi. Ég var sjálf í erfiðu sjö vikna verkfalli 1997 sem verkakona á Vestfjörðum og veit mætavel hvernig það er að búa við óréttlát stjórnvöld eins og voru á þeim tíma og ósanngjarna atvinnurekendur sem gerðu allt til að brjóta niður kjark fólks sem stóð í erfiðri kjarabaráttu en stóð samt saman.