144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mér fannst hún súmmera vel upp þá stöðu sem er uppi og líka þá stjórnarstefnu sem rekin hefur verið hér og er að hafa þær afleiðingar sem við horfum upp á núna.

Mér fannst það áhugavert þegar hv. þingmaður ræddi um hvað það er sem hefur áhrif á verðbólguna og veldur óstöðugleika í íslensku samfélagi og íslensku efnahagslífi. Ég hef nefnilega verið, eins og hv. þingmaður, að furða mig á því hvernig standi á því að það hangi alltaf um hálsinn og það sé sett á herðar þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, stóru kvennastéttanna og opinberra starfsmanna, að halda hér efnahagslegum stöðugleika. En á sama tíma getur ríkisstjórnin ákveðið að aflétta sköttum af þeim sem hafa hæstar tekjurnar, afsalað sér veiðigjöldum þannig að útgerðin geti greitt sér út tugi milljarða í arð og þá er aldrei talað um að það geti haft áhrif á verðbólguna. Ég hef því velt fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhvers staðar fundið hagfræðibókina með kenninguna um það að þessir aðilar og þeir hópar sem hæstar hafa tekjurnar séu einhvern veginn utan við formúluna, þ.e. þeir séu utan við formúluna yfir þau atriði sem teljast til verðbólguhvata. Ég hef nefnilega ekki fundið hana og ég held að það sé kannski kominn tími til að við köllum eftir því að ríkisstjórnin sýni okkur hana vegna þess að annars er þetta algerlega ómarktækur málflutningur og menn eiga þá frekar bara að stíga fram og viðurkenna að þetta sé þeirra stefna, þ.e. að brauðmolakenningin lifi hér góðu lífi.